Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 14:01:49 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:01]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það má með sanni segja að þetta sé skringilegt vinnufyrirkomulag og furðulegur vinnustaður. Það er ágætt að vita að til standi að hafa fundinn fram til klukkan hitt eða þetta og að einhvern tíma verði fundað með þingflokksformönnum. Ég verð þó að segja að ef ég stýrði vinnustaðnum mínum með þessum hætti væri ég ekki vinsæll yfirmaður.

Þegar ég kom inn á þing og núverandi forseti Alþingis talaði um að hún ætlaði að vera forseti okkar allra þá trúði ég henni í einfeldni minni. Nú finn ég til mikils efa í hjarta mínu.