Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 14:02:51 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:02]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég geri mér grein fyrir því að sá forseti sem nú er í forsetastóli getur ekki svarað þeim spurningum sem beint var til forseta Alþingis sem var hér áðan. Ég vil þó koma því á framfæri við hæstv. forseta að á mælendaskránni eru engir stjórnarliðar en það er mjög mikilvægt að þeir taki þátt í þessari umræðu til þess að við getum átt málefnalegar umræður við fylgjendur þess hörmungarsamnings sem við ræðum hér.

Ég vil ítreka það, frú forseti, vegna þess að það tengist fundarstjórn og skipulagi fundarins, að tilboð okkar sem sitjum í stjórnarandstöðu, um að taka öll þau mál sem nú liggja fyrir, ræða þau og senda til nefnda, sem sagt klára 1. umr., stendur enn. Það tilboð stendur enn og þær hugmyndir standa enn. Við getum þá gert hlé á þessu máli tímabundið.