Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 14:12:41 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:12]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Talað hefur verið um það úr þessum ræðustól að Sjálfstæðisflokkurinn sé að misnota restina af minni hlutanum í vafasömum tilgangi í tengslum við þessar umræður. En ég spyr meiri hlutann, nánar tiltekið Samfylkinguna hvort hún sé ekki að nota Sjálfstæðisflokkinn í vafasömum hræðsluáróðri til að ná sínu fram gagnvart efasemdamönnum þingliðs VG um ágæti Icesave með því að hóta stjórnarslitum ef þingmenn þar á bæ vilja ekki kvitta undir þetta frumvarp blindandi.

Sjálfstæðisflokkurinn á sína vafasömu fortíð en það er e.t.v. óþarfi að nota hann sem grýlu til að knýja fram óásættanlegan skuldaklafa um háls þjóðarinnar um ómældan tíma vegna óttans við það að ef Sjálfstæðisflokkurinn komist aftur til valda verði allt svo vont, svo vont að jafnvel móðuharðindin blikni í samanburði. En er það stjórnarfar sem við búum við núna ekki jafnvont og hitt stjórnarmunstrið? Sjaldan hefur leynihyggjan verið eins mikil og sjaldan hafa verið teknar jafnafdrifaríkar ákvarðanir á vitlausum forsendum.

Ákveðið var að falla frá því að vinna saman að lagfæringu á þessum meingallaða nauðasamningi vegna þess að fyrir fram var gefið í þessu spili og niðurstaðan ákveðin, engu skyldi breytt að kröfu fjármálaráðherra, engu skyldi breytt. Minni hlutanum er gefið það að sök að vilja ekki gera eitthvað sem meiri hlutinn í raun þorir ekki að gera, að skoða þetta mál með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. Markmiðið með þessu máli má ekki snúast um að bjarga ímyndaðri vinstri stjórn, þetta mál er miklu stærra, svo miklu stærra en ein ríkisstjórn til eða frá. Og ég verð að viðurkenna, frú forseti, að mér er fullkomlega misboðið, mér er misboðið vegna þess að hér er mál sem verður að skoða betur. Gild rök hafa komið fram sem sýna fram á að við erum að stefna þjóðinni í voða með því að samþykkja þetta frumvarp. Ég verð að viðurkenna að mér finnst hótun um stjórnarslit út af máli af þessu tagi fullkomlega siðlaus. Og ég spyr þingmenn og ráðherra VG — mér þætti vænt um að einhverjir sem væru í húsi mundu nú hlusta vel — samviskuspurningar. Ég spyr sem manneskja sem eitt sinn kaus þennan flokk vegna þess að mér fannst hann standa fyrir heilindi og hugrekki. Ég spyr vegna þess að ég hef heyrt þessa spurningu enduróma um allt samfélagið: Eruð þið til í að fórna öllu, jafnvel stefnu ykkar, til að fá að halda í ímynduð völd? Hverju hafið þið komið í gegn af stefnumálum ykkar? Er umhverfisverndin kannski bara þunn skel utan um fölbleika melónu? Sjáið þið ekki samhengið á milli Icesave, ESB og Samfylkingar? Þar óma sömu tegundir af hótunum og sömu ógeðfelldu kúgununum er beitt. Sjáið þið ekki að þið eruð að greiða leiðina fyrir innlimun Íslands í þetta bandalag sem þið viljið þó á tyllidögum sem minnst vita af og standið jafnvel í baráttu gegn?

Í gegnum hótanir hæstv. heilagrar Jóhönnu Sigurðardóttur um stjórnarslit má greina óttann við að ferlinu við inngöngu í ESB verði frestað og stefnt í uppnám. Og ég segi: Látum reyna á það, látum reyna á það. Hér er enginn að tala um að standa ekki við skuldbindingar, hér er aftur á móti spurningin um það hvort okkur beri að standa við þessar skuldbindingar eins og þær eru settar fram, velt upp af hógværð og rökfestu. Í þessari umferð Icesave hafa nokkur stór atriði komið upp sem mér finnst að stjórnarliðar verði að kanna í þaula. Finnst ykkur allt í lagi að samþykkja blindandi hugsanleg stjórnarskrárbrot? Finnst ykkur í lagi að leggja tekjuskatt tæpra 80.000 skattborgara þessa lands í að borga vexti af Icesave á meðan vafi leikur á því hvort okkur beri að gera það? (Gripið fram í.) Ég spyr ykkur sem viljið snúa að og standa vörð um velferðarkerfið hvort grunnstoðir þessa kerfis muni ekki hreinlega bresta undan þeirri greiðslubyrði sem þið ætlið að samþykkja, sama hvað. (Forseti hringir.)

(Forseti (SF): Forseti bendir hv. þingmanni í allri vinsemd á að beina orðum sínum til forseta en ekki beint til þingmanna í 2. persónu.)

Ég spyr yður, hæstv. kæri forseti, hvort hv. stjórnarliðar vilji ekki hlúa að og standa vörð um velferðarkerfið, hvort grunnstoðir þessa kerfis muni ekki hreinlega bresta undan þeirri greiðslubyrði sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að samþykkja, sama hvað, mörg hver blindandi eins og sjá má því að hér er enginn, ekki nokkur maður, úr stjórnarliðinu að hlusta. Þeim er alveg sama. Mörg hver ættu aðeins að hlusta á þau varnaðarorð sem Sigurður Líndal o.fl. hafa látið hafa eftir sér undanfarna daga.

Finnst hæstv. ríkisstjórn og hv. þingmönnum hennar eðlilegt að samþykkja þetta þvert á samvisku sína vegna þess að annars gæti þessi stjórn verið felld af hæstv. forsætisráðherra? Er virkilega svo mikilvægt að halda í völdin að öllu skal fórnað fyrir þau?

Ég veit allt um það hve ömurlega var haldið um stjórnartaumana í valdatíð Framsóknar og Sjálfstæðisflokks en ekki gleyma Samfylkingunni. Réttlætir það að samþykkja Icesave þrátt fyrir að með því muni velferðarkerfið sem hæstv. ríkisstjórn var kosin til að standa vörð um verði að engu gert?

Ég óska eftir útreikningum frá ykkur og útskýringum um hvernig hægt verði að halda úti velferðarkerfi á meðan þjóðin þarf að nota tekjuskatt 150.000 þegna sinna í að greiða vexti af erlendum lánum. Ég óska eftir að fá þessa útreikninga eigi síðar en í dag.

Viljið þið, hv. stjórnarþingmenn — (Forseti hringir.)

(Forseti (SF): Forseti minnir á …)

Já, ég náði þessu, hæstv. forseti —

(Forseti (SF): … minnir hv. þingmann á að ávarpa ekki hv. þingmenn beint, heldur beina orðum sínum til forseta.)

Frú forseti. Ég hlýt að mega ávarpa hv. þingmenn sem hv. þingmenn.

(Forseti (SF): Forseti minnir á að það er ekki ávarpað beint í 2. persónu. Máli sínu beina þingmenn til forseta, það eru þær reglur sem hér gilda.)

Fáránlegar. Afsakið.

Vilt þú, hæstv. forseti, verða til þess að þetta land og þessi þjóð verði þjóð sem eigi sömu möguleika í alþjóðasamfélaginu og þróunarríki? Heldur hæstv. forseti virkilega og ágæta samfylkingarfólkið að Icesave og öllum hinum skuldunum verði hreinlega sópað undir ESB-teppið ef hæstv. forseta tekst að koma Íslandi þangað inn?

Frú forseti. Ég skil ekki hvað liggur að baki því að vilja samþykkja Icesave í núverandi mynd. Getur verið að okkur hafi verið settir afarkostir sem við hin vitum ekki af? Hvað gerist ef þetta verður ekki samþykkt blindandi fyrir mánaðamót? Hvað er það versta sem gæti gerst ef þessi stjórn heldur ekki velli? Við í minni hlutanum höfum lýst því yfir í ræðu og riti að við munum ekki gera atlögu að stjórninni þó að Icesave verði fellt. Við höfum komið með málefnalegur tillögur að því hvað þarf að gera. Hvað er að því að láta reyna á dómstólaleiðina? Hvað er það versta sem gæti gerst? Hver sagði að þetta væri lokatilboð? Ber okkur að hlíta því?

Ég verð að viðurkenna, kæri hæstv. forseti, að það býr uggur í brjósti mér varðandi þetta mál. Ég hef verulegar áhyggjur af því að ekki megi taka á álitamálum í þessu frumvarpi vegna þess að við látum breska og hollenska embættismenn stjórna hér lagasetningu, ásamt þeim íslensku. Í raun og veru hefur komið skýrt fram hjá stjórnarliðum að þeim er nákvæmlega sama þó að nýjar upplýsingar komi fram sem gætu kallað eftir breytingum. Sú ákvörðun hefur verið tekin af ríkisvaldinu, af embættismönnum, að engu megi breyta. Kannski er því vitagagnslaust að standa í því að reyna að benda á þær ambögur og þá vá sem vaxtabyrðin af Icesave þýðir fyrir þjóð okkar. Kannski er þetta gjörsamlega tilgangslaust, kannski ætti ég bara að fara heim og fá mér ís. Ég ætla þó að skreppa á mótmæli hérna fyrir utan klukkan þrjú því að ég mótmæli þessu ástandi. Kannski ætti ég bara að stinga hausnum í sandinn eins og hæstv. ríkisstjórn og láta eins og ekkert sé. Kannski ætti ég bara að samþykkja þetta eins og stjórnarliðar, samþykkja þetta án þess að hlusta á nagandi ónotatilfinninguna innra með mér, samþykkja þetta af því að ég er orðin svo afspyrnuhundleið á þessu máli, samþykkja vegna þess að annars koma móðuharðindi og botnfrost sem hæstv. forsætisráðherra nefndi nýverið í sinni ræðu.

Ég hef reyndar fréttir fyrir ykkur, kæru stjórnarliðar, það er botnfrost, sífreri sem verður ekki leystur með því að ganga í ESB, sífreri sem mun enda með ósköpum ef þið takið ekki hausinn upp úr sandinum og horfist í augu við að það eru afarkostir sem ESB setur okkur, að samþykkja Icesave ellegar er samrunatilraun stefnt í voða. Það er sífreri, permafrost, vegna þess að við erum að taka á okkur skuldbindingar sem við getum ekki staðið við. Með því að samþykkja Icesave í þeirri mynd sem það er í núna er alveg ljóst að trúverðugleiki okkar mun ekki aukast í fjármálaheiminum á alþjóðavísu.

Ég kalla eftir því að Stiglitz verði samstundis fenginn til ráðgjafar hæstv. ríkisstjórn sem hann hefur meira að segja verið svo sanngjarn að bjóða okkur þó að ekkert sé hlustað á hann. Ég kalla eftir því að Buchheit verði fenginn á fund fjárlaganefndar um þetta mál þegar það fer til nefndar til þess að fara yfir heildarstöðu okkar, en það er alveg ótækt að samþykkja að tekjuskattur meira en 150.000 skattborgara landsins renni í að borga vexti af erlendum lánum þannig að ég endurtaki mig enn og aftur. Við erum að tala um tekjuskatt 80.000 Íslendinga sem fara í að borga bara vextina af Icesave, við erum ekki að tala um að borga niður höfuðstólinn heldur bara vextina um ókomna tíð.

Það býr uggur í hjarta mér því að sá niðurskurður sem slík innheimta erlendra lánardrottna kallar eftir mun setja okkur á sama stað, á sama efnahagslega staðinn og þróunarríkin og það ku ekki vera mjög eftirsóknarvert að þurfa að nota heilbrigðisþjónustuna þar. Þar eru líka margar brotalamir í menntakerfinu. Þau hafa heldur aldrei verið svo lánsöm að búa við þau lífsgæði sem Íslendingar hafa notið vegna þeirrar gæfu að geta nýtt velflestar auðlindir okkar í þágu þjóðarinnar um langt skeið. Að innan naga mig tilfinningar sem kalla má váboða og ég get ekki og ég vil ekki samþykkja þessa afarkosti nýlenduherranna fyrr en ég sé enga aðra leið út.

Ég legg því til, frú forseti, að þetta frumvarp hæstv. fjármálaráðherra verði samstundis dregið til baka og við látum hin lögin standa sem voru samþykkt hér í ágúst. Þó að fyrirvararnir væru ekki fullkomnir voru þau með nokkuð sem ég hef ekki eins miklar áhyggjur af vegna þess að öryggisnet var ofið til að tryggja að við færum ekki fram úr okkur með greiðslubyrði.

Frú forseti Að samþykkja Icesave-frumvarp hæstv. fjármálaráðherra er ógæfuspor fyrir land og þjóð. Ég bið hv. samþingmenn að grandskoða hug sinn og hjarta og kynna sér allt það sem hefur komið fram um vafaatriði. Ég bið hv. þingmenn að gleyma því ekki að með því að samþykkja þetta frumvarp í óbreyttri mynd eruð þið, hv. þingmenn — afsakið að ég notaði „þið“ — að gefa skýr skilaboð til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og til Breta og til Hollendinga um að lög Alþingis séu okkur ekki heilagri en svo að við breytum þeim til að þóknast erlendum lénsherrum. Fullveldið er að veði, sjálfstæðið er að veði. Höfnum þessum afarkostum, höfum hugrekki til að sýna að við látum ekki umbreyta í nýlendu á ný þjóð sem fyrir ári var talin fimmta ríkasta þjóð í heimi.

Sá tími sem við vorum nýlenda Dana er ekki tími sem við minnumst með söknuði. Látum ekki hneppa okkur í hlekki skuldbindinga sem munu færast yfir á skert lífsgæði um áratugi fyrir börnin okkar og barnabörnin, stöndum saman gegn þessari kúgun. Núna er ekki rétti tíminn til að sækja um ESB. Það er engin reisn yfir því að koma að því borði fyrr en við höfum hysjað upp um okkur buxurnar og sýnt reisnina með því að búa hér til regluverk sem tryggir að slíkt allsherjarklúður í fjármálum þjóðarinnar endurtaki sig aldrei aftur. Sýnum ábyrga hegðun með því að taka ekki á okkur meira en við getum valdið. Nú þegar hefur það komið skýrt fram að það er alveg ljóst samkvæmt útreikningum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að við getum ekki staðið undir þessu. Spyrjum okkur í hjartans einlægni hverju megi fórna, hvort við viljum frekar vera þjóð meðal nýlenduþjóða eða þjóð meðal sjálfstæðra þjóða.

Frú forseti. Við erum í efnahagsstríði, heimsbyggðin er að sigla inn í aðra kreppu og við ættum frekar að einbeita okkur að fæðuöryggi landsins sem og öðrum grunnþáttum, við ættum að einbeita okkur að því að búa til gott umhverfi fyrir fjölskyldur landsins sem búa yfir einstöku þolgæði gagnvart því sem hefur yfir þær gengið. Sýnum þeim að við ætlum ekki bara að taka frá þjóðinni, heldur tryggja henni réttlæti. Notum það svigrúm sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagði til, 600 milljarða — voru það 600 milljarðar eða milljónir? Maður er orðinn ruglaður í þessum tölum — til að afskrifa skuldir heimilanna — örugglega milljarðar — frekar en skuldir 1998 og annarra fyrirtækja sem hafa hreinlega skrapað allt innan úr fyrirtækjum sínum. Hættum þessu leikriti með Icesave, drögum þetta frumvarp til baka og fylgjum þeim lögum sem við sjálf sömdum hér á þinginu. Förum saman í þá vegferð sem endurreisn Íslands kallar eftir.

Ég kalla eftir því að þau verkefni sem fram undan eru verði unnin út frá öðrum forsendum en skotgrafahernaðarforsendum fjórflokksins. Vinnum út frá málefnum og lausnum handan hægri/vinstri/miðju og leyfið okkur í minni hlutanum að axla ábyrgðina með ykkur. Vald er vandmeðfarið og á tímum sem þessum er best að valdinu sé dreift á sem flestar hendur. Ég er sannfærð um að allir sem hér eru inni vilja ekkert frekar en að finna sameiginlegar lausnir fyrir þjóðina. Hættum þessu leikriti og einhendum okkur í að finna sanngjarnar leiðir til niðurskurðar. Hættum að eltast við fortíðina og einhendum okkar í að finna þau verkefni sem við getum unnið saman að, eins og t.d. Icesave.

Ég veit ekki með ykkur en þetta er ekkert sérstaklega uppbyggilegt starfsumhverfi og vegna þess að við erum hér sem eins konar fulltrúar þjóðarinnar held ég að það sé á okkar ábyrgð að finna þessar leiðir. Fólk er alveg búið að fá nóg af gamla Íslandi, og það sem hér fer fram minnir mann óþægilega á það. Hvar eru nýju vinnubrögðin? Hvar er vald þingsins? Af hverju á að vinna að þessu máli, sem þó enginn asi er á, með næturfundum og laugardagsfundum og enn fleiri næturfundum? Sýnum nú framkvæmdarvaldinu að það er ekki þess að ákveða dagskrá þingsins heldur okkar þingmannanna. Við hljótum að geta verið sammála um að vald þingsins hefur um langa hríð verið nánast ekki neitt. Þetta er kölluð einhvers konar stimpilstofnun og ég held að við munum ekki fá neina virðingu eða traust ef við getum ekki sýnt fram á að það erum við sem stjórnum löggjafarsamkundunni og við sem stjórnum vinnutímanum okkar, ekki framkvæmdarvaldið.

Frú forseti. Ég skora nú á háttvirta og hæstvirta stjórnarliða að breyta aðeins um stefnu varðandi Icesave og leyfa að við komum að þessu máli saman. Það er alveg einsýnt að ef þetta verður tekið inn í nefnd verður bara enn einn skrípaleikurinn í kringum þetta og manni nánast fallast hendur. Ég skil eiginlega ekki til hvers við erum hérna ef þetta á að vera svona. Er þá ekki bara hægt að leyfa embættismönnunum að taka við? Það er eins og að þeir stjórni öllu hér í þessu landi.