Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 14:41:14 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:41]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir afar heiðarlega og einlæga ræðu og get tekið undir orð hv. þm. Þorgerðar K. Gunnarsdóttur um hvernig upplifunin var af ræðu þingmannsins. Í raun og veru má segja að í málflutningi hv. þingmanns alveg frá því í sumar hafi það sem ég sagði áðan, heiðarleiki og einlægni, komið fram og verið ákveðin skilaboð og skýr málflutningur. Og það er það sem ég ætlaði að spyrja hv. þingmann svolítið út í, að umræðan hefur verið svolítið sérkennileg, eins og ég tek undir með þingmanninum, í sumar en kannski sérdeilis núna í haust, því að að lokum tókst ákveðin samstaða í þinginu í sumar um að endurbæta afleitan og vonlausan samning. Á þeim tímum komu ítrekað fram, því miður, hjá hæstv. ríkisstjórn dómsdagsspár um að við yrðum að ljúka þessu fyrir 30. júlí eða lok júlí — það var aldrei skilgreint nákvæmlega — þá mundi eitthvað gerast. Síðan var mjög nauðsynlegt að ljúka þessu fyrir lok sumarþings sem við og gerðum og sá samningur stendur jú enn þá og þau lög frá Alþingi.

Síðan þegar við komum á haustþingið og allt pukrið með svör Hollendinga og Breta kom fram var allt í einu 23. október mjög mikilvægur dagur og hér átti allt að fara í bál og brand. Það hefur auðvitað ekki gerst enn og nú er sagt að ljúka þurfi þessu fyrir 30. nóvember og það er kannski þess vegna sem við erum höfð hér í salnum og látin tala bæði daga og nætur og án matarhléa og slíkra hluta.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, og fá heiðarlegt og einlægt svar, hvort þingmaðurinn telji að eftir mánudaginn næsta, 30. nóvember, muni alþjóðasamfélagið ráðast á okkur (Forseti hringir.) eða eitthvað skuggalegt gerast sem ég sé alla vega ekki. Ég hefði áhuga á að heyra álit hv. þingmanns.