Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 14:53:46 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:53]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það hefur verið sagt hér ítrekað úr forsetastóli að til standi að halda fund með þingflokksformönnum þar sem þingflokksformenn geta átt orðastað við forseta um það hvenær og hvernig við getum hagað þinghaldinu í dag, hversu lengi fundur eigi að standa o.s.frv. Jafnvel mætti á þeim fundi ræða tilhögun fundarhléa. Matartími er nú löngu liðinn en við getum kannski séð fyrir okkur hér í kvöld, ef á að funda hér fram á kvöldið, hvort ekki verði örugglega kvöldverðarhlé o.s.frv. Allt þetta þurfum við að ræða og því hefur verið lýst yfir að slíkur fundur verði haldinn.

Við hljótum að spyrja enn og aftur: Hvað dvelur orminn langa? Hvers vegna getum við ekki fundað strax, gengið frá þessum hlutum, þannig að þingmenn viti hvað bíði þeirra og geti skipulagt og undirbúið umræður í ljósi þess hvenær þeir eigi að tala. Það á að haga þingstörfum með þeim hætti að sæmilegt skikk sé á þessu. Það á að (Forseti hringir.) taka í útrétta sáttarhönd stjórnarandstöðunnar um þessa hluti til að menn geri þetta vel, það eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra.