Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 14:55:06 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það var verið að upplýsa það hér, meðan hv. þm. Illugi Gunnarsson var að tala, að boðað hefur verið til fundar kl. korter yfir þrjú með forseta og ber að fagna því óskaplega að sú yfirlýsing skuli komin fram.

Frú forseti. Mig langar enn og aftur að benda á það að við höfum ekki séð hæstv. forsætisráðherra hér í allan dag. Ég óska eftir því að hún verði viðstödd þessa umræðu því að þau mál sem við ræðum eiga svo sannarlega við hæstv. forsætisráðherra. Það er mikilvægt að hún sé hér líka til þess að hlusta á okkur. Í annan stað vil ég ítreka að það er sjálfsagt mál að breyta dagskránni og taka af þau stóru mál sem bíða þannig að ef forseti vill hafa forgöngu um það þá er það sjálfsagt mál. Við getum þá í framhaldinu, þegar við erum búin að ræða þau mál og koma þeim til nefnda, haldið áfram að ræða Icesave-málið.