Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 15:00:39 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:00]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka forseta fyrir að taka ákvörðun um að kalla saman þingflokksformenn og halda fund með þeim núna korter yfir þrjú og langar til að spyrja virðulegan forseta í leiðinni hvort hlé verði gert á þingfundi á meðan. Það er mjög mikilvægt að á þeim fundi verði teknar einhverjar ákvarðanir um það hversu lengi eigi að halda hér áfram í dag. Eins og komið hefur fram höfum við fundað sleitulaust síðan hálfellefu og ekki verið gefið matarhlé eða önnur hlé. Hv. þingmenn hafa komið hér upp og óskað eftir að slíkt yrði gert og eðlileg mannréttindi fólks virt, að fá að matast í friði án þess að þurfa að vera á hlaupum. Einnig hafa hv. þingmenn beðið um að gert yrði hlé vegna mótmæla sem hér væru fyrir utan þingið. Það væri svo sem gaman að heyra álit forseta á því hvort til standi að gera hlé á fundi meðan á því stendur.