Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 15:04:12 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:04]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þær athugasemdir sem hv. þingmenn hafa gert hér um fundarstjórn forseta. Ég gerði mér far um það núna að kynna mér hvort það væru fordæmi fyrir misbeitingu forsetavalds með þeim hætti sem við verðum vitni hér að með mjög frekjulegum hætti og af mikilli lítilsvirðingu við þá þingmenn sem eru staddir hér til að taka þátt í umræðunni. Hér hefur ítrekað verið farið fram á það að eðlilegt matarhlé sé gert á þingfundi. Hæstv. forseti ákveður að misbeita valdi sínu, að mér er sagt í fyrsta skipti, án samráðs við stjórnarandstöðu og þegar jafnvel stendur til að halda hér þingfundi áfram fram eftir kvöldi eða nóttu.

Við erum tilbúin í það, virðulegi forseti, en vinnubrögð af þessum toga eru eingöngu til þess fallin að efla óeiningu (Forseti hringir.) og kynda undir þeirri óeiningu sem er hér í þingsal milli stjórnarandstöðunnar og stjórnarflokkanna. Það er verkefni (Forseti hringir.) virðulegs forseta að leita friðar og almennilegra lausna á því (Forseti hringir.) að þingið geti starfað með eðlilegum hætti. (Forseti hringir.) Svo frekjuleg framkoma sem við verðum hér vitni að, virðulegi forseti, sæmir ekki (Forseti hringir.) embætti forseta.