Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 15:30:58 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:30]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er skoðun mín að það hefði orðið betri niðurstaða, svarið er því já. Á sínum tíma ákváðu þáverandi stjórnarflokkar, Sjálfstæðisflokkur og Samfylking, af pólitískum ástæðum að fara út í að semja um að greiða þessa reikninga en með Brussel-viðmiðunum. Það er það sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur einmitt alltaf haldið til haga — af pólitískum ástæðum vorum við til í að borga þetta, en þó þannig að við gætum staðið undir því. Það hefur verið má segja útskýring eða vörn Sjálfstæðisflokksins síðar í málinu að við vorum ekki tilbúin til að gera þetta upp á hvaða býti sem er. Brussel-viðmiðin áttu að halda.

Farið var í mikla vinnu í sumar við þessa efnahagslegu fyrirvara. Eins og ég alla vega skildi orðræðuna þá hjá Sjálfstæðisflokknum töldu þeir sig hafa lagt mjög mikið á sig í vinnu, það gerðu reyndar framsóknarmenn líka, við að reyna að koma efnahagslegu fyrirvörunum í það form sem menn töldu sjálfum sér trú um að hald væri í, þ.e. að við gætum staðið undir þessu og hægt væri að veita ríkisábyrgð með þeim hætti sem gert var í sumar með hinum efnahagslegu fyrirvörum sem núna hafa verið skertir. Þannig að málið hefur versnað frá því í sumar.

Ég tel að betra hefði verið að hafa stjórnarandstöðuna með í því. Ég held að það hefði verið langbest að Íslendingar hefðu sýnt sameiginlegan front, sameiginlegan styrk, stjórn og stjórnarandstaða, og harma að það hafi ekki verið gert. Við sjáum núna að forsætisráðherra skrifaði bréf — og það alveg ljóst að hæstv. forsætisráðherra hefur lítið beitt sér í málinu, það sjá það allir held ég sem hafa fylgst með utanríkismálum í lengri tíma. Hæstv. forsætisráðherra sendir bréf til Gordons Browns, forsætisráðherra Breta, og fær svar en svarið er bara núll og nix. Þar er sagt lokin að Bretar vonist til þess að málið geti nú verið leyst „swiftly“ eða snarlega. Þetta var eiginlega svona „takk fyrir góð kynni á árinu, gleðileg jól“. (Forseti hringir.) Þetta er mjög léttúðugt svar.