Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 15:33:21 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:33]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég held að hv. þingmaður hafi einmitt dregið það ágætlega fram að vinnubrögð ríkisstjórnarinnar hafi stuðlað að því að við stöndum núna berskjölduð gagnvart Bretum og Hollendingum. Menn beittu sér ekki með þeim hætti sem hefði verið skynsamlegast eftir sumarþingið, þ.e. að fá samstöðu allra stjórnmálaflokka til að fara í málið frekar en að framkvæmdarvaldið eitt og sér tæki það algjörlega að sér, af því það er þá í annað sinn sem ríkisstjórnin klúðrar þessum samningamálum.

En gott og vel. Ég vil gjarnan fá að vita hvert mat hv. þingmanns er á því af hverju ríkisstjórnin hefur farið þessar leiðir. Hvaða hagsmuni telur hv. þingmaður búa þar að baki að menn í ríkisstjórninni eru tilbúnir til að samþykkja þessa samninga eftir allt sem hefur verið sagt? Telur þingmaðurinn að t.d. Samfylkingin leggi mikla áherslu á Evrópusambandsaðildina, sem allir þekkja og öllum er kunnug og kemur ekkert á óvart? Og á móti, að vinstri grænir telji ríkisstjórnarsamstarfið það mikilvægt að mörgu er fórnað til að halda ríkisstjórnarsamstarfinu saman? Hverjir eru hagsmunirnir að mati þingmannsins sem búa þar að baki að ríkisstjórnin fer þessa hörmulegu leið sem raun ber vitni?