Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 15:46:32 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:46]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda áfram með ræðu mína sem ég hóf á þriðjudagskvöldið, ég talaði þá í fyrsta sinn í þessu máli en náði ekki að fara í gegnum öll þau efnisatriði sem ég hafði hugsað mér að flytja vegna tímaskorts. Í þeirri ræðu fór ég yfir aðdraganda málsins, þ.e. frá því að málið hófst, upphaf þess, og einnig hvernig það fór í gegnum sumarþingið, hvernig það endaði og í þá stöðu sem við erum í í augnablikinu, með lög frá Alþingi um ríkisábyrgð á þennan merkilega samning við innstæðutryggingarsjóðinn.

Áður en ég hef ræðuna langar mig að segja nokkur orð um þá dagskrá og þær dagskrártillögur sem hér hafa verið ræddar bæði í dag og í gær og reyndar einnig á fimmtudagskvöldið eða aðfararnótt föstudagsins og þá áherslu sem hæstv. ríkisstjórn virðist leggja á að talað sé um þetta mál daginn út og daginn inn, en á meðan eru mál sem ég verð að segja að ég tel miklu mikilvægara að verði rædd og fari í gegnum 1. umr. þinginu og gangi síðan til nefndar en það eru mál sem tengjast fjárlögum. Einnig væri auðvitað áhugavert að fara að sjá mál sem tengdust með beinni hætti atvinnuuppbyggingu og fjölgun starfa í landinu.

Það getur vel verið að ég sé eitthvað tregur og hafi ekki náð að skilja orð hæstv. ríkisstjórnar þegar fulltrúar hennar hafa komið hér upp og afneitað þeirri tillögu okkar stjórnarandstöðunnar að ýta þessu máli til hliðar þar sem ekkert liggi á og taka mikilvægari mál á dagskrá, það má vel vera. En mér finnst það svolítið sérkennilegt að mér heyrist að í skoðanakönnunum, kannski óformlegum, sem eru gerðar meðal þjóðarinnar sé samhljómur með stjórnarandstöðunni í því að menn telji að þetta mál sé ekki þess eðlis að ýta eigi öllum öðrum málum til hliðar.

Ég var eftir þingfund í gærkvöldi á fundi með þó nokkrum aðilum, á annað hundrað manns, og þar var ekki einn einasti sem tók undir stefnu og orð ríkisstjórnarinnar hvað þetta varðar. Þarna voru þó, held ég, saman komnir venjulegir íbúar alveg óháð því hvaða flokk þeir kusu síðastliðið vor og hvort þeir séu fylgismenn ríkisstjórnarinnar að einu eða öðru leyti. Ekki einn einasti af á annað hundrað manns taldi það mikilvægast að við eyddum hér bæði kvöldum, nóttum og helgum í að ræða Icesave-málið, heldur skipti mun meira máli að taka á dagskrá mál sem hefðu meira með uppbyggingu Íslands að gera og það hvernig við ætlum að stoppa í fjárlagagöt og annað í þeim dúr.

Það gleður mig reyndar að hafa séð hér hæstv. ráðherra bæði sitja í salnum og koma við í umræðunni, ég vona þá að þeir hlýði á mál mitt sem og annarra þingmanna og ef þeir telja að það þess virði að reyna að sannfæra mig og aðra þingmenn og þá hugsanlega þjóðina um að það sé mikilvægara að ræða þetta mál hér í þaula endalaust og ýta öllum öðrum málum til hliðar, trúi ég því að hæstv. ráðherrar og hugsanlega einhverjir stjórnarþingmenn komi upp og reyni enn og aftur að koma þessu inn í höfuðið á mér.

Hér hefur verið rætt talsvert um það og hæstv. utanríkisráðherra kom inn á það að hér væri um eins konar málþóf að ræða. Ég verð að viðurkenna það, eftir að hafa fylgst með pólitík um langt skeið, að fyrr á tímum hafði maður þann skilning á að um málþóf væri að ræða þegar menn stóðu í pontu klukkutímum saman, einn og sami maðurinn kannski, og læsu upp úr bókum og væru ekki að fjalla um efnisatriði málsins eða hver ferill málsins væri, hvernig dagskrár og slíkt færi fram í þinginu, ég tala nú ekki um málþóf þegar kannski einn stjórnarandstöðuflokkur hélt öllum meiri hlutanum, réttilega kosnum meiri hluta, og þjóðinni gegn vilja þjóðarinnar. Ég get ekki betur séð en að í þessu máli sé öll stjórnarandstaðan sameinuð, stjórnin með lítinn meiri hluta, en í öllum skoðanakönnunum sem fram hafa komið er mikill meiri hluti þjóðarinnar á þeirri skoðun að við eigum ekki að greiða Icesave eða að við eigum alla vega ekki að ganga að þessari ríkisábyrgð eins og hún kemur fram í þeim samningi sem var lagður fram endanlega eða að lokum í vor á sumarþinginu.

Þess vegna er svolítið sérstakt að kalla það málþóf þegar hér fer fram efnisleg umræða. Ég tek hins vegar undir það og hélt því fram í fyrstu ræðu minni að þetta væri auðvitað sérkennileg umræða þar sem þetta væri nánast einræða út í tómið þar sem stjórnarliðar og hæstv. ráðherrar tækju ekki þátt í umræðunni þrátt fyrir að til þeirra væri varpað ótal spurningum, þrátt fyrir að fram kæmu nýir hlutir og þrátt fyrir að svo virðist að hvorki hafi tekist að sannfæra stjórnarandstöðuna um að stjórnin sé á réttri leið né þjóðina. Þess vegna hefði maður haldið að hv. stjórnarþingmenn sem og hæstv. ráðherrar þyrftu að koma hér upp og reyna að berja í brestina, sannfæra sitt fólk þarna úti og jafnvel gera tilraun til að sannfæra okkur stjórnarandstæðinga. Það getur vel verið að við séum treg til þess en það mætti þó alla vega reyna.

Máli mínu til stuðnings um það að ég geti sagt hér að meiri hluti þjóðarinnar sé á þessari skoðun, kom það fram í útvarpskönnun — ég sagði að þetta væru kannski ekki formlegar skoðanakannanir, ekki upp á síðkastið — að um 75% hlustenda Bylgjunnar hefðu talið að forsetinn ætti að synja staðfestingar á þeim lögum sem hugsanlega verða samþykkt hér einhvern tíma á næstu dögum eða vikum. Á sambærilegan hátt held ég að það séu komnir á ellefta þúsund Íslendingar, einstaklingar, sem hafa farið inn á vefinn indefence.is og skrifað undir áskorun sama efnis.

Nú væri það kannski skiljanlegt að stjórnin daufheyrðist við þessum orðum okkar ef það væri eingöngu stjórnarandstaðan sem stæði hér og þyldi upp þessar kröfur og að þetta væri afleitur samningur og fyrirvararnir sem við hefðum náð í sumar með þrotlausri og mikilli vinnu hefðu verið ásættanlegir að mati margra, þó að við framsóknarmenn teldum að ekki væri gengið nægilega langt og vildum fara í nýjar samningaviðræður. Það væri skiljanlegt ef menn segðu að þetta væri bara dæmigerður stjórnarandstöðuáróður og þetta hefði ekkert með málið að gera, stjórnin væri á þessari leið og stjórnarandstaðan væri bara að reyna að standa í vegi fyrir því sem hún væri að gera.

Þegar í ljós kemur að hver erlendi sérfræðingurinn á fætur öðrum sem hér er fenginn til, virtir hagfræðingar og sérfræðingar í skuldaskilum þjóða eða samningum, og segir það sama, á ég mjög erfitt með að skilja af hverju stjórnarliðar og hæstv. ríkisstjórn skuli ekki taka slíkum ábendingum fagnandi og setjast niður með öllum þingmönnum, jafnt í stjórnarandstöðu sem stjórn, og reyna að útbúa gæfulega fyrirvara eða hreinlega viðurkenna að samningurinn hafi verið það lélegur að ekki sé við hann bætandi og það verði hreinlega að fara og semja upp á nýtt. Ég held að það væri miklu gæfulegri leið. Þá mundum við með einhverjum hætti viðurkenna pólitískt að við værum tilbúin að standa við þær skuldbindingar sem okkur ber en auðvitað ekkert meira og setja fyrirvara við þá lagalegu óvissu sem ríkir um þessa blessuðu Evróputilskipun um greiðslur úr innlánstryggingarsjóði við bankahrun. Eins og fram kom í ræðum hjá hv. þingmönnum áðan, er það auðvitað ekki það sama hvort einn banki af hundrað eða þúsund fellur eða hvort allt bankakerfi eins lands fellur.

Þetta er svolítið merkilegt, finnst mér, að má telja má upp fjölmarga aðila sem hafa lagt gott til, eins og hefur komið fram í ræðu minni áður, fjölmarga íslenska lögmenn og reyndar erlenda líka auk auðvitað Indefence-hópsins sem hefur verið mjög ötull að benda á ágalla við upphaflega samninginn og hjálpaði verulega til við að setja inn fyrirvarana í sumar og síðan samanburð sem sá hópur hefur gert á samningnum með fyrirvörunum og loks þeim samningi sem hæstv. ríkisstjórnin er að reyna að fara með í gegnum þingið.

Fyrir nokkrum dögum barst okkur þingmönnum bréf, og ég held að ég hafi endað þar í ræðu minni á þriðjudaginn, frá Gunnari Tómassyni sem hafði undir höndum bréf frá virtum hagfræðingum og sérfræðingum í Bandaríkjunum til okkar þar sem stóð, ef ég man rétt, „To our Friends in Iceland“, eða yfirlýsing til vina okkar á Íslandi. Þessir tveir sérfræðingar eru James K. Galbraith og William K. Black, og þetta eru ekki bara einhverjir sem standa í pontu og dettur allt í einu í hug að senda bréf til Íslendinga, þetta eru hagfræðingar í fremstu röð sem hafa engra hagsmuna að gæta varðandi úrlausn Icesave-málsins. Í bréfi Gunnars Tómassonar kemur fram, í lok bréfsins segir hann að það væri „atlaga að almannahag af hálfu Alþingis að láta alvarlegar athugasemdir þessara manna við skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem vind um eyru þjóta“. Svo ég vitni, með leyfi forseta, til lokasetningar í bréfi hagfræðingsins Gunnars Tómassonar sem hefur verið ötull að benda okkur þingmönnum allt frá því í sumar á hætturnar sem tengjast endurreisnaráætlunum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þá áhættu sem Icesave-samningurinn bætir við með aukinni skuldsetningu. Í þýðingu hans á þessu bréfi, Yfirlýsing til vina okkar á Íslandi, segja þeir hérna, með leyfi forseta:

„Við höfum farið gaumgæfilega yfir skýrslu AGS, dags. 20. október 2009, og önnur gögn varðandi mat og sjálfbærni vergra erlendra skulda Íslands sem nú eru taldar vera yfir 300% af vergri landsframleiðslu og gætu hækkað mjög mikið ef ekki reyndist kleift að viðhalda núverandi gengi krónunnar. Við teljum þessi gögn vekja ýmsar alvarlegar spurningar.“

Í þessu samhengi má nefna að í sumar fórum við framsóknarþingmenn á fund fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, svokallaðs landstjóra hér á landi, og ræddum stöðuna þá þar sem í ljósi umræðna eftir bankahrunið í fyrrahaust kom fram í orðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og fyrrgreinds manns, Franek Rozwadowski, ef ég man rétt hvað hann heitir, að þá hafi skuldsetning þjóðarinnar verið talin um 160%, ef ég man rétt, en reyndar sagt að um það væri mjög mikill vafi, hún gæti verið talsvert hærri og hugsanlega jafnvel lægri en trúlega hærri, það væri erfitt að meta það. Þá var jafnframt fullyrt að skuldsetning sem færi yfir 240% væri klárlega ekki „sustainable“, eins og þeir hafa mjög gjarnan á orði hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, þ.e. að það yrði ekki gæfulegt fyrir íslenska þjóð að taka það á sig og þá mundum við ekki standa með sjálfbærum hætti undir skuldsetningu okkar.

Í sumar kom í ljós að skuldirnar voru töluvert miklu hærri, jafnvel 250 eða upp undir 300% þó að á þessum fundi vildi forstöðumaðurinn ekki viðurkenna það. Síðar kom í ljós að þær væru alla vega 310% og jafnvel meira. Þetta er auðvitað óskiljanlegt og fólkinu í landinu finnst það óskiljanlegt að hægt sé að meta á einum tímapunkti að skuldir upp á 160% af vergri landsframleiðslu séu erfiðar, ef þær fari yfir 240 séu þær alveg klárlega vonlausar, en síðan þegar þær eru komnar hátt á fjórða hundrað prósent sé þetta allt í lagi. Skýringar fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á þessum fundi okkar framsóknarmanna í sumar voru út af fyrir sig, það má svo sem alveg hafa það eftir: Það mætti svo sem segja að það sé stöðugt hægt að leggja meiri og meiri byrðar á fólk, eins og hann sagði, þið getið auðvitað borgað meira ef þið skerið meira niður, hækkið skattana meira eða flytjið enn minna inn en þið gerið og aukið útflutning, og aukið auðvitað skattlagningu, og með þeim hætti getið þið smátt og smátt greitt meira.

Ég hef reyndar velt því fyrir mér hvort Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sé bara að hugsa til mjög skamms tíma í senn, því að með þessum auknu byrðum sem fram komu í máli hans og ég fór hér með, þá endar auðvitað með því að slíkt samfélag getur ekki greitt meira. Þegar búið er að draga niður eða nánast kyrkja allan sköpunarkraft og framleiðni í samfélaginu með niðurskurði, skattheimtu og auknum gjaldeyrishöftum endar auðvitað með því að slíkt samfélag er ekki sjálfbært og getur ekki aukið tekjur sínar og það er einmitt áhættan við það að taka yfir Icesave-skuldirnar.

Í sumar var búið að tryggja að þessar skuldir yrðu innan ákveðins ramma með hinum efnahagslegu fyrirvörum, ef illa gengi mundu þessir fyrirvarar grípa inn í og koma í veg fyrir að að okkur yrði gengið enn frekar, með þeim hætti sem ég lýsti áðan, þ.e. að auka hér enn frekar skattheimtu, auka niðurskurð, herða á gjaldeyrishöftum, minnka innflutning og auka útflutning með þeim hætti. Það er vítahringur sem ekki er hægt að komast út úr og hefur verið kallað vaxtagildra sem mörg þróunarlönd hafa þurft að glíma við um áratugaskeið vegna þess að það er svo erfitt að greiða af erlendum skuldum, þ.e. ef skuldirnar eru í erlendri mynt, það þarf að framleiða svo mikinn gjaldeyri. Hér hefur það margsinnis komið fram í ræðustól, bæði í sumar og einnig núna í haust, að þetta atriði er úrslitaatriði í því hvort við getum greitt af þessum skuldum okkar eður ei.

Þrátt fyrir að í þessu máli hafi komið fram fjölmörg atriði á síðustu vikum, og eiginlega er það merkilegt með eins umtalað og maður skyldi ætla útrætt mál að það skuli enn á ný nánast í viku hverri koma fram nýr sjónarhóll á þetta mál, þá er það eiginlega furðulegt að við skulum ekki vera að vinna þessa vinnu í nefndunum eins og vissulega var gert í sumar. Og það er rétt að rifja það upp að fjárlaganefnd fékk mikið hrós í sumar fyrir að standa með þeim hætti að vinnunni sem hún gerði. Hið sama verður hins vegar ekki sagt um vinnuna í haust og er þar einfaldast að vísa til nefndarálita 1., 2. og 3. minni hluta sem í talsvert löngu máli fjalla um það að ekki hafi verið hægt að fá að kalla inn alla aðila sem þeir óskuðu eftir að fá að ræða við og ekki var t.d. tekin til almennrar umræðu niðurstaða eftir umfjöllun haustsins.

Það er kannski hjákátlegt að fara fram á það hér, frú forseti ...

(Forseti (ÁÞS): Forseti minnir þingmanninn á að ávarpa forseta með viðeigandi hætti.)

Ég bið herra forseta innilega afsökunar, hér hafa orðið forsetaskipti á meðan ég var niðursokkinn í ræðu mína en svona getur margt verið sérkennilegt á þinginu og maður nær kannski ekki að fylgjast með öllu.

Í þessum nefndarálitum kemur, eins og ég sagði áðan, skýrt fram að fjárlaganefnd vann ekki með sama hætti og skilaði vinnu inn í þingið eins og hún gerði í sumar. Það er eins og ég segi kannski hjákátlegt að fara fram á það eins og við gerðum hér í vikunni og ég ætla þó að reyna það enn og aftur, að biðja hreinlega um að herra forseti grípi til þess að stöðva þennan fund í dag og gefa nefndum þingsins möguleika á að fjalla um þessi mál þó að traust og trúnaður til þess að það verði gert með viðeigandi hætti sé kannski tæpur þegar menn vitna til þessara 1., 2. og 3. minnihlutaálita í fjárlaganefnd.

Ég held að það sé augljóst að fyrir liggi nægilegt efni til að fara yfir þau mál og má til að mynda nefna, það sem kom hér til umfjöllunar í vikunni í fyrirspurnum, að Daniel Gros, sem situr í bankaráði Seðlabankans, og ku kosta 5 milljónir í þýðingarvinnu, en hann lagði til og velti hér upp hlutum sem geta numið 185 milljörðum. Verð ég að segja að þeim 5 milljónum er nokkuð vel varið, sérstaklega í ljósi þess að þær 5 milljónir voru einungis þýðingarvinna, og til samanburðar við þýðingarvinnu í peningastefnunefnd þar sem ég held að erlendur aðili er heitir Ann Siebert sitji, að það hafi ekki kostað neitt vegna þess að þær fundargerðir skuli ævinlega ritaðar á ensku og settar á netið. Ég hefði talið að það væri kannski snjallt af Seðlabankanum að setja fundargerðir bankaráðsins á netið líka og þá væri þessi aukakostnaður upp á 5 milljónir þar af leiðandi væntanlega enginn.

Ég sé núna, herra forseti, (Forseti hringir.) og ég verð að líta um öxl til að vera viss um að sami forseti sitji, að tími minn er liðinn (Forseti hringir.) þó að ég hafi ekki getað klárað allt sem ég vildi segja og verð því að (Forseti hringir.) biðja um að verða settur aftur á mælendaskrá svo ég geti lokið máli mínu seinna í dag.