Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 16:27:38 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:27]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég tek undir sjónarmið um að eðlilegt sé að það sé aðeins skýrt hversu lengi forseti hyggst halda áfram fundi. Ég vildi líka nefna það í ljósi umræðunnar að það er fagnaðarefni að hæstv. utanríkisráðherra er hér með okkur og hæstv. fjármálaráðherra er tæpast langt undan. Hann hefur sótt þingfundi vel meðan á þessari umræðu hefur staðið. En hvað með hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra?

Næsti maður á mælendaskrá er hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson sem hefur fjallað mjög ítarlega um efnahagslega þætti málsins og staðið að nefndaráliti þar um og hefur í fyrri ræðum um þetta mál einkum farið ofan í þá og gert mjög alvarlegar og veigamiklar athugasemdir á því sviði. Efnahags- og viðskiptaráðherra hefur þessa málaflokka, efnahagsmál og viðskiptamál, á sínu forræði og ber ábyrgð á þeim gagnvart þinginu þannig að ég spyr: Hvar er sá hæstv. ráðherra?