Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 17:01:31 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:01]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hefði gjarnan viljað hafa meira en eina mínútu til að ræða þetta mál. Ég tel nefnilega að rök hv. þingmanns, um að mjög líklegt sé að vextir verði almennt lágir á markaði á næstunni, séu gild en um leið verður kannski mun erfiðara fyrir lönd í erfiðleikum að fá lán. Þeir erfiðleikar sem maður horfir fram á að breska ríkið geti lent í, og Bretland í heildina, breskir bankar, gætu gert það að verkum að erfiðara verður fyrir okkur að fá viðsemjendur okkar til að semja upp á nýtt. Væri þá ekki best fyrir okkur að láta fyrirvarana frá því í sumar standa? Það yrði þá kjarninn í málflutningi okkar að þá fyrirvara væri Alþingi búið að samþykkja. Við höfum samþykkt að greiða þetta svona og viljum standa við það og munum gera það að sex árum liðnum.