Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 17:04:06 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:04]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni ágæta ræðu. Það er ævinlega gaman að heyra álit hans á hinum efnahagslegu leiðum í þessu máli sem blandast auðvitað pólitískri afstöðu og því sem muni hugsanlega gerast á næstu árum og áratugum. Staða okkar mun tengjast því hvernig vextir verða um heimsbyggðina, eða alla vega á okkar hveli, og eins gengi íslensku krónunnar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í þá hluti sem hafa verið að koma upp á yfirborðið eftir að fjárlaganefnd tók málið út úr nefndinni. Ég vil nefna tvo hluti sem verið hafa til umræðu upp á síðkastið, þ.e. hugmyndir Daniels Gros þess efnis að ef við sætum við ákveðið jafnvægisborð með tilliti til vaxta, hvort það gæti verið um 185 milljarða sparnaður — hvort hv. þingmaður hefði eitthvað kíkt á það mál og gæti aðeins dýpkað umræðuna um það. Eins þetta mál sem komið hefur upp í sambandi við skuldaskil á milli gamla Landsbankans og hins nýja, um að þar séu hugsanlega atriði sem geri það að verkum að gengi íslensku krónunnar muni annars vegar lækka eða hugsanlega verða þrýstingur á að það verði lægra um langt árabil. Má í því sambandi nefna sögusagnir sem verið hafa á kreiki á undanförnum vikum þess efnis að Landsbankinn sé að ryksuga fjölbýlismarkaðinn, hvort hann sé að búa sig undir það að geta greitt sitt erlenda lán.