Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 17:08:42 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:08]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir þessi svör. Ég deili skoðunum hans á þessu, það hlýtur að þurfa að taka þetta til alvarlegrar skoðunar og íhugunar. Ég velti því upp í þeim takmarkaða ræðutíma sem við höfum í þessum andsvörum hvort hv. þingmaður telji ekki mikilvægt að kalla nefndir þingsins saman til að fjalla um þetta mál. Helst ætti að gera það strax en þó má hugsa sér að það verði gert milli 2. og 3. umr., eins og stundum hefur verið sagt.

Það verður þó að segjast eins og er að nokkrir stjórnarþingmenn hafa á göngum úti stungið því að okkur að það væri í lagi að taka málið úr 2. umr. og taka það fyrir í 3. umr. Aðrir stjórnarliðar (Forseti hringir.) hafa svo sagt að það liggi ekkert á málinu, þess vegna megi hafa 3. umr. í apríl. (Forseti hringir.) En er ekki þingmaðurinn sammála mér um að það sé mikilvægt að um þetta sé fjallað í nefndum þingsins (Forseti hringir.) áður en við förum að greiða atkvæði um málið?