Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 17:49:16 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:49]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að þakka þingmanninum fyrir svarið þó að ég sé ekki alveg nógu sátt við það. Ég tel að það sé mjög mikið í anda þess viðhorfs sem var fyrir bankahrunið þar sem margítrekað kom fram að stjórnarflokkarnir sem sátu þá, Sjálfstæðisflokkur og Samfylking, höfðu fengið margvíslegar upplýsingar um að staðan í íslenska bankakerfinu væri ekki góð, að hún væri mjög slæm og skuldastaðan hjá bankakerfinu væri orðin ógnvænleg. (Gripið fram í: Hún var …) Menn tóku hins vegar þá ákvörðun að ræða það ekki, gera engar áætlanir og höfðu ekkert plan B, heldur virtust vonast til að hlutirnir mundu reddast. Það er eitt af því sem ég hef bent á, ég hef töluverðar áhyggjur af því að ríkisstjórnin virðist ekki hafa — ég vil hins vegar taka fram að ég er fullviss um að lögin muni standa. (Forseti hringir.) Ef svo verður hins vegar ekki, og við höfum lent í því að þetta „ef“ hefur orðið að raunveruleika, (Forseti hringir.) held ég að það sé mjög mikilvægt að þingmenn velti fyrir sér hver þau áhrif (Forseti hringir.) geta orðið þó að við efumst ekki um gildi neyðarlaganna.