Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 17:51:51 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:51]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir hreint ágæta ræðu. Mig langar að spyrja hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur tveggja spurninga, hvort hún geti aðeins velt vöngum með mér yfir tveimur hlutum, annars vegar þeim sem hefur verið hér til umfjöllunar þess efnis að Evrópusambandsþingið hafi í vikunni samþykkt að skora á Íslendinga að ganga fljótt og vel til samninga og ganga frá þessu Icesave-samkomulagi eins og það liggur fyrir. Mig langar eiginlega að heyra álit hv. þingmannsins á því hvort hún telji það eðlilegan framgangsmáta að aðili sem við höfum óskað eftir að fara í aðildarviðræður við skipti sér af með þessum hætti og hvort Icesave-málið hafi kannski þar af leiðandi verið beinn þátttakandi í þessari umræðu á Íslandi alveg frá upphafi.

Eins langar mig að spyrja hv. þingmann um þá staðreynd að í sumar hafi ævinlega einhver verið lokafrestur gefinn, gjarnan af hæstv. fjármálaráðherra, sem gengur núna þvert um salinn, það yrði að ljúka málinu fyrir lok júlí eða sumarþings eða 23. október — og núna skal það vera fyrir 30. nóvember. Deilir hv. þingmaður þeim áhyggjum, væntanlega þá með hæstv. ríkisstjórn, að eitthvað sérstakt gerist? Staðreyndin er sú að á hinum þremur dögunum þegar ríkisstjórnin gaf þinginu lokafrest til að afgreiða málið gerðist ekki neitt annað en að í lok sumars settum við lög sem mér vitanlega gilda enn og hefur hvorki verið hafnað af Hollendingum né Bretum og ættu þar af leiðandi að standa eftir sem áður.

Mig langar að heyra hv. þingmann aðeins velta vöngum með mér yfir þessum tveimur spurningum.