Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 17:57:20 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:57]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Nei. Ég deili ekki þeim áhyggjum, hvorki hæstvirts fjármálaráðherra né annarra í ríkisstjórninni, að hér gerist eitthvað 1. desember ef við samþykkjum ekki það frumvarp sem hér er óskað eftir að verði að lögum, ekkert frekar en að sá tímafrestur sem settur hefur verið á okkur hingað til skiptir máli. Fresturinn hverju sinni var ævinlega í tengslum við það að lánin yrðu ekki afgreidd. Nú er svo komið að þau verða afgreidd þrátt fyrir allt og þess vegna er ekki hægt að beita þeirri hótun enn einu sinni. Þetta er hótunarstíll ríkisstjórnarinnar: Ef þið hlýðið ekki og gerið ekki þetta gerist eitthvað agalegt. Þetta er röng uppeldisaðferð ef ríkisstjórnin telur að hún sé að ala upp þingið með þessum hætti.

Það sem ég hefði viljað bæta við í fyrra andsvari mínu var að það er þyngra en tárum taki, ef maður má vera svo dramatískur, að ríkisstjórn Íslands skuli taka undir með Bretum og Hollendingum og fara þess á leit við Alþingi Íslendinga að það breyti lögum (Forseti hringir.) af því að lögin þóknast ekki Bretum og Hollendingum. Það er dapurlegt, frú forseti.