Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 18:11:07 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:11]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson gagnrýndi þá stjórn forseta á fundinum í gær að ekki skyldi hafa verið stoppaður þingfundur á meðan fundur um fiskveiðistjórn fór fram. Sá fundur hafði verið boðaður með drjúgum fyrirvara, það lá algjörlega ljóst fyrir og ég spurði m.a. hv. formann þingflokks Framsóknarflokksins hvort hann óskaði eftir því að ég aflýsti þeim fundi vegna þess að þingið gengur klárlega fyrir. Hv. þingmaður og þingflokksformaður Framsóknarflokksins kvað svo ekki vera og þess vegna var fiskveiðistjórnarfundurinn haldinn og ég gerði drög að því að reyna að fylgjast með hvernig umræðan var. Á sama tíma var miðstjórnarfundur Sjálfstæðisflokksins um morguninn. Ég gerði ekki athugasemdir við það og taldi ekki neitt tilefni til að fresta þingfundum á meðan hann ætti sér stað. Það sem mér finnst skipta máli núna er að við drífum þessa 2. umr. áfram, fáum fram þau sjónarmið sem þurfa að koma til umræðu í fjárlaganefnd. Við reynum að forðast endurtekningar og nota tíma þingsins vel og reynum að koma áleiðis (Forseti hringir.) skilaboðum okkar. Síðan fer þetta í nefnd (Forseti hringir.) og ég skora á hv. stjórnarliða að drífa málið af þannig að það geti fengið eðlilega umfjöllun í fjárlaganefnd.