Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 18:20:00 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:20]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Ég skil ekki það ofurkapp sem stjórnarflokkarnir leggja á að við klárum þetta frumvarp um Icesave og að við göngum að þessum nýju fyrirvörum. Ég hef velt þessu mikið fyrir mér og rætt og reifað málið í þingsal en líka úti í samfélaginu.

Frú forseti. Hvað getur hugsanlega réttlætt að lítil eyja með 320.000 íbúa úti í ballarhafi taki á sig þessar drápsklyfjar sem hún svo augljóslega stendur ekki undir? Af hverju á litla Ísland að taka á sig þann skaða sem gallað regluverk Evrópusambandsins hefur valdið? Af hverju eiga börnin okkar og barnabörnin að bjarga innstæðutryggingarkerfinu í Evrópusambandinu?

Ég held að ástæður stjórnarflokkanna fyrir þessu ofurkappi séu aðallega tvær. Annars vegar er það ástæða Samfylkingarinnar. Icesave er augljóslega inngöngumiði inn í Evrópusambandið. Það er alltaf að verða skýrara og skýrara. Það virðist trú þeirra að þegar við verðum komin þangað inn verði okkur bjargað með einhverjum dularfullum hætti. Ég held að það sé að skapast raunveruleg hætta á því að við tökum á okkur Icesave-skuldbindingarnar en vegna þess hvernig Evrópusambandið hefur beitt sér einmitt í þessu máli sé andstaðan við aðild orðin svo mikil að þjóðin muni hafna aðild að Evrópusambandinu. Við munum sem sagt, frú forseti, ef til vill borga þennan rándýra aðgöngumiða inn í Evrópusambandið en ekki ganga inn í þann dýrðarheim sem samfylkingarmenn segja að þar sé að finna. Hin ástæðan — og það held ég að sé meginástæða þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs — er að menn vilja ekki klúðra vinstri stjórn þegar hún er loksins komin á eftir áratuga bið.

Frú forseti. Ég er afskaplega félagslynd manneskja og á marga vini sem ég hitti því miður allt of sjaldan þessa dagana því ég er alltaf í þessu þinghúsi. Þá kemur samskiptavefur eins og Facebook í góðar þarfir því þar getur maður spjallað við vini og kunningja án þess að hitta þá í rauntíma og eigin persónu. Það viðurkennist hér með að flestir vinir mínir eru félagshyggjufólk og margir hafa mjög ákveðnar skoðanir. Ég hef ítrekað verið kveðin í kútinn á Facebook þegar ég gagnrýni ríkisstjórnina eða stjórnarliða. Hinir vinstri sinnuðu vinir mínir hafa umsvifalaust snúist til varnar ríkisstjórninni. Þeir hafa sagt óskynsamlegt og siðferðislega rangt að samþykkja ekki Icesave en þegar ég hef spurt hvernig við eigum að fara að því að greiða Icesave-skuldbindingarnar hefur reyndar verið fátt um svör. Hin ástæðan sem ég hef fengið að heyra er að ekki megi sprengja hina dýrmætu vinstri stjórn og þá virðast menn vilja leggja allt í sölurnar.

Í gær beindi ég einni spurningu til vina minna á þessum umrædda samskiptavef og hún hljómar svo: „Margrét Tryggvadóttir spyr vini sína hvort þeim finnist það þess virði að þjóðin kokgleypi Icesave í staðinn fyrir ESB-aðild og hvort það sé þess virði að samþykkja Icesave til að vinstri stjórnin haldi.“ Tólf vinir svöruðu kallinu en nú brá svo við að engir úr vinahópi mínum snerust til varnar ríkisstjórninni eða bentu á að spurning mín væri í meira lagi bæði leiðandi og hlutlæg, sem hún auðvitað er. Svör allra voru að það væri hvorki forsvaranlegt að fórna þjóðarhag fyrir ESB-aðild né áframhaldandi vinstri stjórn. Það er merkilegt að enginn svarenda kannast við að hér sé raunveruleg vinstri stjórn, hvað þá norræn velferðarstjórn.

Frú forseti. Ég ætla að leyfa mér að lesa eitt af þeim svörum sem mér bárust á vefnum og það er frá ágætri vinkonu minni sem er félagshyggjumanneskja. Mér finnst hún hafa lög að mæla en hún segir: „Er svarið ekki að nokkru eða öllu leyti að samkvæmt skoðanakönnunum eru um 70% landsmanna á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu? Á tæpum tveimur sólarhringum hafa 7.600 manns skrifað undir áskorun Indefence til forsetans.“ Mig langar að bæta inn í þetta svar að samkvæmt nýjustu tölum eru það tæplega 11.000 manns sem hafa skráð sig á þennan vef Indefence. (Gripið fram í: Rúmlega.) Hún heldur áfram, með leyfi forseta: „Vinstri stjórn. Hafa ekki allir minnihlutaflokkarnir á Alþingi lýst því yfir að þeir muni verja ríkisstjórnina falli? Hafa ekki fulltrúar allra minnihlutaflokkanna á þingi sagt að þeir sjái ekki samhengið á milli þess að Icesave verði fellt og ríkisstjórnin falli? Hefur einhver annar en Jóhanna sagt að líf stjórnarinnar standi og falli með Icesave? Icesave er mál sem á ekki að tengja við Evrópusambandið þótt Evrópusambandið geri það og á ekki heldur að tengja lífi ríkisstjórnarinnar þótt Jóhanna geri það.“

Ég fékk fleiri góð svör. Vinkona mín á Fáskrúðsfirði svaraði mér og sagði: „Við erum að mínu mati komin út fyrir hvort hér sé hægri eða vinstri stjórn. Málin sem liggja fyrir eru of stór og mikil. Þau kalla ekki á heldur heimta að fólk vinni saman af heilindum með hag þjóðarinnar að leiðarljósi. Því miður hefur þessi stjórn mynduð flokkum ekki getað það. Mér persónulega finnst vinstri stjórn ekki meira virði en hagur þjóðarinnar. Fyrir utan það vil ég sjá neyðarstjórn skipaða óflokksbundnu fólki, fagaðilum og sérfræðingum.“

Frú forseti. Hér erum við komin að því sem margir hafa nefnt í dag og það er mikilvægi þess að við náum samstöðu um þetta mál, þingmenn úr öllum flokkum og þjóðin sjálf nái samstöðu og hreinlega taki ákvörðun um að leysa þetta mál saman og standa saman um lausn málsins með þjóðarhag í huga. Þetta mál er ekki bara að kljúfa þingið heldur þjóðina alla. Fólk skiptist í tvo flokka. Annar flokkurinn er náttúrlega mun stærri og það er sá hluti þjóðarinnar sem vill ekki að við tökum á okkur þetta mál og vill jafnvel láta reyna á dómstólaleiðina.

Dómsdagur hefur verið boðaður aftur og aftur. Næsti dómsdagur er sem sagt 30. nóvember. Þessu máli á að vera lokið fyrir þann tíma (Gripið fram í: Við bíðum spennt.) og við bíðum einmitt spennt eftir hvað gerist þá. Ég held að það gerist ekkert en ég held líka að nú sé tækifærið í okkar höndum að láta þessa dagsetningu líða og varpa boltanum yfir til Breta og Hollendinga. Það gilda lög í landinu og mér finnst algerlega ótækt að þau lög séu borin undir Breta og Hollendinga. Það er Alþingi Íslendinga sem setti þessi lög í ágúst sl. og þau eiga að gilda. Það er bein árás á þingræðið á Íslandi að mínu mati að bera löggjöf undir Breta og Hollendinga.

Ég vil vitna aftur í vini mína á Facebook sem svöruðu þessu. Ég fór líka út í mótmæli í dag, hitti fólk og spjallaði við það. Kannski er ég í einhverjum afmörkuðum hópi en það fólk sem ég umgengst og hef heyrt í skilur ekki af hverju í ósköpunum einhverjum dettur í hug að breyta þeim fyrirvörum sem settir voru í sumar og skilur ekki þann undirlægjuhátt í ríkisstjórninni að detta það í hug.