Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 18:58:06 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:58]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kem enn á ný í ljósi orða fyrri þingmanna og varðandi hv. þm. Björn Val Gíslason. Nú er það svo, ég held að það hafi komið mjög skýrt fram fyrir helgi, að það var ekki ósk stjórnarandstöðunnar að halda kvöldfund eða þennan fund um helgina og við höfum gert stjórnarflokkunum tilboð um breytta dagskrá. Við höfum óskað eftir því að þessari umræðu verði frestað og önnur mál sem við teljum vera brýnni fyrir íslenskt samfélag verði tekin fram fyrir. Við höfum líka verið tilbúin til þess að semja um ræðutíma en forseti og forustumenn stjórnarflokkanna hafa hafnað því algerlega. Ég næ því ekki alveg, ef það er svo mikill ákafi hjá formönnum stjórnarflokkanna að halda þessu máli gangandi, af hverju þeir eru ekki hér því að það er alveg ljóst að það er ekki ósk okkar í stjórnarandstöðunni að láta þetta mál ganga svona fyrir sig. Við höfum margítrekað það. Mér finnst því mjög einkennilegt að heyra þá spurningu undir liðnum fundarstjórn forseta frá hv. þm. Birni Val Gíslasyni í ljósi forsögunnar.