Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 19:57:31 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla að taka til máls um Icesave-málið og þá lagasetningu og vegna þess að við höfum verið vændir um það, hv. þingmenn, að endurtaka okkur vil ég byrja á að segja að ég ætla að ræða um skuldsetningu þjóða og gildi sparnaðar. Ég held að það hafi ekki verið rætt enn þá og er mjög mikilsvert. Síðan ætla ég að ræða um reglur Evrópusambandsins og ummæli sem höfð voru eftir fjármálaráðherra Hollands 3. mars, frú forseti, áður en samið var við Hollendinga. Það hefur heldur ekki komið fram, það er reyndar í fjölmiðlum einmitt núna, var að birtast. Svo ætla ég að ræða um það fyrirbæri þegar sakbitnir menn semja og sérstaklega yfirlýsingu hæstv. þáverandi viðskiptaráðherra, Björgvins G. Sigurðssonar, 13. október í Morgunblaðinu á forsíðu.

Ég ætla að byrja á því að ræða um skuldsetningu þjóða. Meðalskuldir allra þjóða í heiminum eru núll svo því sé haldið til haga. Það sem ein þjóð skuldar á önnur þjóð hjá henni og þetta er eitthvað sem ég held að menn hafi ekki áttað sig á. Það eru til þjóðir í miklum plús og þar ber kannski hæst núna síðustu þrjú, fjögur, fimm árin Kínverja sem flytja út miklu miklu meira en þeir höfðu gert í langan tíma heldur en þeir flytja inn. Annað ríki ekki langt frá er Taívan sem hefur flutt út í 40–50 ár ætíð meira en það flytur inn. Taívan á miklar innstæður úti í heimi. Arabaríkin, olíuríkin og fleiri eiga líka innstæður.

Þær þjóðir sem eru þekktastar fyrir mínus, miklar skuldir, frú forseti, eru t.d. Bandaríkin sem hafa í áratugi flutt út miklu meira en þau flytja inn en hafa í rauninni flutt út dollara á móti, þannig að þau hafa stundað útflutning á dollurum og skulda óhemjumikið. Ástralía skuldar líka mikið miðað við þjóðarframleiðslu og nú nýverið, frú forseti, Ísland sem er farið að skulda óhemjumikla peninga og gerði fyrir hrun. Talið var að Íslendingar skulduðu þá 12–13 milljón milljónir eða 12–13 þúsund milljarða en stór hluti af því afskrifast núna.

Það er annað sem menn þurfa að gera sér grein fyrir líka og mér finnst ekki vera almennt, að lítil ríki skulda meira á íbúa en stór. Þetta er mjög auðvelt að ímynda sér ef við tökum eitthvert ríki og skiptum því upp í tvennt, þá skuldar það út fyrir sig jafnmikið á hvern íbúa en svo skulda hlutarnir hvor öðrum og þá vaxa skuldir á hvern íbúa við það að skipta einu ríki í tvennt. Þetta er rökfræðilega ástæðan fyrir því að lítil ríki skulda yfirleitt meira á íbúa en stór eða eiga líka meira hjá öðrum ríkjum ef um það er að ræða.

Það er hægt að skipta skuldum ríkja í tvennt, þ.e. opinbera hlutann sem við sem fulltrúar skattgreiðenda þurfum að hafa áhyggjur af, bæði sveitarfélög og ríki, og svo er það hluti einkafyrirtækja og einstaklinga sem er eiginlega áhyggjuefni þeirra sem lána þeim, því að þeir hafa ekki veð í öðru en því sem einstaklingar eða fyrirtæki eiga, geta ekki höfðað til skattgreiðslna eða annars slíks.

Hafa verður í huga, frú forseti, af því að Íslendingum er svo gjarnt að tala bara um skuldir og hafa áhyggjur af skuldurum, að menn skulda ekki neitt nema einhver annar eigi hjá þeim, þ.e. forsenda þess að fá lánað er að einhver spari. Því miður hefur ekki verið mjög mikil tíska á Íslandi að spara, ekki af frjálsum vilja. Reyndar höfum við komið upp afskaplega sterku kerfi sem eru lífeyrissjóðirnir, sem er þvingaður sparnaður almennings, en uppspretta fjármagnsins verður alltaf í gegnum sparnað og svo er honum ráðstafað. Því miður hafa Íslendingar í lengri tíma notað sparnað erlendra þjóða til að fjármagna neyslu sína og framkvæmdir en ekki sparað fyrir því sjálfir, ekki nema að hluta í gegnum lífeyrissjóðina.

Það er spurning hve einstaklingur getur skuldað mikið eða fyrirtæki eða heilt ríki, hve mikið það getur skuldað. Það er alveg á hreinu að menn geta ekki skuldað óendanlega mikið. Í haust sagði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að 240% af landsframleiðslu væri ekki bærilegt, við mundum ekki bera það. Nokkrum mánuðum seinna segja þeir að 310% sé allt í einu orðið bærilegt. Ég spurði fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að því á fundi hjá hv. efnahags- og skattanefnd hvort við mundum geta borið tífalda landsframleiðslu, þ.e. 1000%. Hann taldi það ekki og ég spurði þá hvar mörkin lægju. Hann gat ekki nefnt það. Mér sýnist að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn finni þessi mörk eftir því sem honum hentar, því miður, það séu ekki mjög dýr eða stór vísindi á bak við það.

Svo hefur komið í ljós og ég hef grun um það, og það er eitt af því sem þyrfti að kanna, að skuld nýja Landsbankans við gamla Landsbankann sem er metin upp á 330 milljarða sé ekki inni í þeim skuldatölum sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er að telja, en þetta er þó skuld íslensks ríkisbanka sem er Landsbankinn nýi, við kröfuhafa sem er Landsbankinn gamli. Þetta er skuld Íslendinga við útlendinga þannig að þessi skuld ætti svo sannarlega að vera talin með inni í skuldatölu þjóðarinnar. Þetta er eitthvað sem ég held að hv. fjárlaganefnd, og ég beini því sérstaklega til formanns nefndarinnar að nefndin láti kanna hvort skuld nýja Landsbankans við gamla Landsbankann sem er allt saman gjaldeyrir sé talin með í skuldavanda þjóðarinnar sem núna er 310%. Þetta eru 330 milljarðar, þetta eru um 20% af landsframleiðslu sem mundu þá bætast við. Þetta er enn þá óupplýst.

Frú forseti. Ég lofaði því — ég sé að tími minn tikkar allt of hratt — að ræða örlítið um gildi sparnaðar og við skulum byrja á því að tala um einstaklinga. Við skulum hugsa okkur tvo einstaklinga í sömu fjölskyldu og annar skuldar 3 millj. sem eru í vanskilum og hinn á 3 millj. í banka. Í fyrsta lagi, sá sem á 3 millj. í banka er sjálfstæður, hann getur sagt upp vinnunni ef honum sinnast við atvinnurekandann, nokkuð sem sá sem skuldar 3 millj. getur ekki. Hann getur alls ekki sagt upp, frú forseti, því að hann er í endalausum vandræðum með peninga. Við það að eiga 3 millj. í banka öðlast menn sjálfstæði. Fyrirtæki reyndar líka og þjóðfélög líka, frú forseti. Þeir sem eiga peninga eru sjálfstæðir, þeir sem skulda peninga eru ósjálfstæðir. Þetta er fyrsta gildi sparnaðar.

Annað gildi sparnaðar er virðing. Við skulum hugsa okkur að tveir frændur hittist í fermingarveislu og allir vita að annar er með allt niður um sig, skuldar 3 millj. í vanskilum. Hinn á 3 millj. í bankabók. Hvor heldur hæstv. forseti að njóti meiri virðingar í fermingarveislunni? Ég held að ég þurfi ekki að svara því. Ekki spurning að það er sá sem á 3 millj. í banka.

Þriðja atriðið er rólegur svefn. Sá sem skuldar og er í vanskilum og með endalausir innheimtur á bakinu og slíkt, getur ekki sofið rólega. Á því heimili er ekki ró og friður, börnum líður illa, maka líður illa, ættingjum líður illa. Þetta er gildi sparnaðar, því að þeim sem á 3 millj. í bankabók og er ekki með neitt í vanskilum líður vel, fjölskyldu hans líður vel. Þó að þau eigi kannski ekki stóran jeppa, þó að þau eigi ekki flatskjá, líður þeim vel. Þetta er gildi sparnaðar, þriðja atriðið, rólegur svefn.

Fjórða atriðið er kostnaður. Sá sem skuldar er endalaust að borga vanskilakostnað. Sá sem hins vegar á 3 millj. í banka og mundi vilja kaupa sér venjulegt sjónvarpstæki, því að hann kaupir að sjálfsögðu ekki flatskjá, fær afslátt ef hann getur staðgreitt. Kostnaður við vanskilin og afslættir við það að staðgreiða er fjórða gildi sparnaðar.

Fimmta gildi sparnaðar og það er kannski það sem vegur þyngst, frú forseti, og hefur því miður ekki verið rætt nógu mikið í Icesave-málinu, eru vextirnir. Ef maður á fjármuni í banka vinna vextirnir með honum í lífinu, en ef maður skuldar 3 millj. í banka vinna vextirnir gegn honum í lífinu, hann er alla tíð að vinna fyrir vöxtum.

Þau fimm atriði sem ég hef nefnt um gildi sparnaðar ættu menn virkilega að fara að hafa í huga. Þegar þjóðin er komin í það öngstræti sem hún er komin í núna að einhverju leyti vegna eyðslu og bruðls á undangengnum áratugum, því að þessi þjóð hefur lengi eytt um efni fram, en líka vegna mikillar áhættugleði og óraunsæis, frú forseti, og alltaf haft það í huga að allt reddaðist og mér finnst það vera svo sterkt einmitt í þess máli um Icesave að menn treysti því að hlutirnir reddist.

Þetta er gildi sparnaðar fyrir einstaklinga en það merkilega er, frú forseti, að þetta gildir líka fyrir fyrirtæki, þjóðfélög og ríki. (Forseti hringir.) Ég sé að það er eitthvað undarlegt með klukkuna, frú forseti.

(Forseti (ÁRJ): Já, forseti sér að klukkan lætur ekki alveg að stjórn.)

Ég ætla að vona að ég hafi endalausan tíma.

(Forseti (ÁRJ): Hv. þingmaður er kominn aðeins yfir tímann þannig að forsæti slær í bjölluna og biður hv. þingmann um að ljúka ræðu sinni.)

Ég ætlaði að ræða um ummæli fjármálaráðherra Hollands þann 3. mars en ég verð að gera það í næstu ræðu og bið hæstv. forseta að setja mig á mælendaskrá.