Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 20:22:40 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Svo ég byrji á þessari síðustu spurningu þá veit ég ekki nákvæmlega af hvaða tilefni þetta var en þetta er löng ræða sem fjallar um innlánstryggingarkerfi Evrópusambandsins og veltir upp ýmsum spurningum um það kerfi. Áður áttu innlánsstofnanirnar sjálfar nefnilega að standa undir þessu kerfi en ekki skattgreiðendur. Það stóð nákvæmlega í tilskipuninni. Hann veltir því fyrir sér hvernig hægt sé að breyta þessu kerfi þannig að það viðhaldi sínum eiginleika, að það séu innlánsstofnanir sem greiði en ekki skattgreiðendur. Þetta er mjög mikilvægt innlegg í umræðuna og hefur ekki komið fram áður. Mér finnst ekki réttmætt hjá hv. stjórnarliðum að segja að hér sé málþóf því mér finnst alltaf eitthvað nýtt vera að koma inn í málið.

Skattastefna ríkisstjórnarinnar er stórhættuleg. Ég hef aldrei vitað til þess að nokkur þjóð bjargi sér út úr klemmu með því að skattleggja löskuð fyrirtæki og heimili. Margar þjóðir dæla núna peningum út í atvinnulífið til að koma því í gang. Við sjálfstæðismenn höfum bent á þá leið að skattleggja séreignarsparnaðinn í eitt skipti til að fresta vandanum, fresta því að leggja álögur á fyrirtæki og heimili í eitt ár eða jafnvel tvö á meðan við erum að komast yfir þessa djúpu gjá sem allir eru sammála um að taki ekki nema eitt eða tvö ár. Eftir það, ef ekki er búið að laska atvinnulífið og fyrirtækin, geta þau farið að borga sífellt meiri skatta og þá spáir Seðlabankinn að hér verði myndarlegur hagvöxtur og þá munum við geta borgað Icesave. Ef menn skattleggja strax í byrjun geta menn aftur á móti lent í því að gjáin verði svo djúp að þjóðin komist ekki upp úr henni. Þeir sem óttast bæði Icesave og skattana — ég hef heyrt í mörgu fólki sem er að flytja til útlanda út af Icesave (Forseti hringir.) en það fólk er auðlindin.