Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 20:30:50 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:30]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Þessi þingfundur er ekki í samræmi við þingsköp Alþingis. Hann er ekki í samræmi við 10. gr. þingskapalaganna og í engu samræmi við anda þingskapanna. Ég sat í allsherjarnefnd þegar þingsköpum var breytt og skrifaði undir nefndarálit þar að lútandi og hér brýtur forseti Alþingis þingsköp með freklegum hætti. Maður hlýtur því að spyrja sig að því hvernig bregðast skuli við þegar forseti Alþingis kýs að haga sér með þessum hætti vegna þess að í þingsköpum Alþingis eru engar greinar um slíka atburði. Ég held reyndar að þeir sem skrifuðu þingsköpin hafi ekki haft hugmyndaflug í það að forseti Alþingis mundi haga sér eins og nú gerist. Ég skil ekki af hverju forseti Alþingis hefur kosið að koma á stríði við stjórnarandstöðuna þegar mikið af málum er undir, koma á algeru stríði og óska svo eftir samstarfi við stjórnarandstöðuna um einstök mál. Hvers konar frekja er þetta eiginlega?