Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 21:20:44 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:20]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skil vel hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson, skil þær tilfinningar sem greinilega bærast í brjósti hans á þessu andartaki. Ég held að hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni eins og okkur öllum sem erum hér stödd, þingmönnum stjórnarandstöðunnr, sé verulega misboðið. Ég held að við séum öll sammála um að það sem er að gerast hérna er í ósamræmi við ákvæði þingskapa. Ég held að við séum öll sammála um að það sem er að gerast hérna er í ósamræmi við heilbrigða skynsemi. Sú stjórnun á þinginu sem birtist okkur er ekki góð.

Frekar en að ræða málið á þeim nótum sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson gerði vil ég ræða það á þeim nótum hvernig við getum leyst úr málinu, hvernig við getum leiðrétt þau mistök sem hér hafa átt sér stað, hvernig við getum komist út úr þessu þannig að við getum haldið áfram að ræða Icesave-málið vegna þess að það er auðvitað það sem við erum hingað komin til að gera. Við erum komin hingað til að ræða Icesave-málið. (Gripið fram í: Nú?) Ég hefði kosið að ræða Icesave-málið í síðustu ræðu minni en ekki þá fundarskapavitleysu sem hér átti sér stað.

En ég held að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hafi alveg hitt rétt á það hvernig hann lýsir tilfinningum okkar í þessu máli. Réttasta úrlausn þeirra mála sem eru fyrir hendi held ég að séu þau að gera hlé á þessum fundi og reyna að leiða málið í jörð með einhverjum skynsamlegum hætti í staðinn fyrir að taka skylmingarnar hérna. Um leið vil ég segja að ef hæstv. forseti tekur ekki til baka úrskurð sinn frá því áðan mun ég halda uppi mótmælum hér í allt kvöld.