Úrskurður vegna Vestfjarðavegar

Mánudaginn 30. nóvember 2009, kl. 11:09:28 (0)


138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

úrskurður vegna Vestfjarðavegar.

[11:09]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þann 28. apríl sl. rann út kærufrestur til hæstv. umhverfisráðherra vegna úrskurðar um umhverfismat á Vestfjarðavegi, tilteknum kafla milli Eiðis í Vattarfirði og Kjálkafjarðar. Hæstv. umhverfisráðherra hafði þá tvo mánuði til að skera úr því álitamáli sem þar var uppi og átti að ljúka því verki 28. júní sl. Nú eru komin lok nóvember og mér vitanlega bólar enn ekki neitt á úrskurði hæstv. ráðherra. Nú vitum við að það er ekki alveg nýtt að úrskurðir hæstv. ráðherra dragist umfram það sem ætlast er til samkvæmt gildandi lögum en þetta mál er mjög alvarlegt að því leytinu að það gerir það að verkum að ekki er hægt að hefjast handa við undirbúning vegaframkvæmda þar sem þörfin kallar mest á. Við ræddum þessi mál, þ.e. vegagerð á Vestfjarðavegi, fyrr á þessu hausti og þá kom mjög skýrt fram sá vilji allra þingmanna sem tóku til máls að þessi vegagerð yrði að vera í algerum forgangi. Það eru auðvitað góð orð út af fyrir sig en á meðan hæstv. ráðherra lýkur ekki því sem henni ber samkvæmt lögum, að kveða upp úrskurð varðandi þetta álitamál, má segja að málinu sé haldið í sjálfheldu og menn komist hvorki lönd né strönd.

Þess vegna vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra, vegna þess að mjög mikið er í húfi, hvenær megi ætla að þessum úrskurði verði lokið, hvenær vinnu hæstv. ráðherra við þennan úrskurð verði lokið þannig að hægt sé að eyða þeirri óvissu sem er ríkjandi um þennan hluta vegarins.