138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:33]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ragnheiði E. Árnadóttur ræðuna og langaði að spyrja út í það sem fram kom í ræðu hv. þingmanns. Reyndar væri enn áhugaverðara að heyra svör hæstv. fjármálaráðherra við þeim spurningum og í framhaldi af þeim umræðum sem urðu fyrr í morgun vegna fyrirspurnar hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur um þessi merku ummæli fjármálaráðherra beggja viðsemjenda okkar, hvernig haldið hefur verið á þeim málum og hver niðurstaðan er.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún telur að ríkisstjórnin og samninganefndin hafi haldið þessum atriðum nægilega vel á lofti. Nú fannst mér erfitt að skilja orð hæstv. fjármálaráðherra fyrr í morgun öðruvísi en svo að sífellt hafi verið talað um þetta á fundum hæstv. ráðherra. Ég vil svo sem ekki segja neitt um það. Það virðist þá vera að viðsemjendur okkar hafi hunsað algerlega þessi tilmæli varðandi þá hluti sem við sitjum uppi með. Ég spyr hv. þingmann hvernig við hefðum átt að standa betur að þessu máli og hvort þetta séu ekki lykilatriði, að þarna hefðum við átt að spyrna við fótum með því hreinlega að neita að tala við þá (Forseti hringir.) nema þeir ræði slíka hluti.