138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:38]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég reyni að haga málflutningi mínum þannig að þessi mínúta dugi. Varðandi svar hv. þingmanns langar mig að velta fyrir mér hvernig við verjum okkur. Ég hef orðið var mikla vanþekkingu hjá þingmönnum annarra Evrópulanda varðandi þetta mál, mönnum sem tengjast þessu máli með einum eða öðrum hætti. Hér var rætt í síðustu viku, bæði á laugardag og hina dagana, um að þörf hefði verið á því að kynning á skoðunum okkar Íslendinga hefði verið gerð með formlegri hætti, til að mynda, eins og kom fram í morgun, hefði verið æskilegt að hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra hefðu átt formlega fundi með viðsemjendum okkar til að koma þessum mjög svo mikilvægu skilaboðum skýrt á framfæri. Eins hefur það verið nefnt að jafnvel þyrftu fulltrúar (Forseti hringir.) allra þingflokka að fara til útlanda og eiga fundi með þingmönnum (Forseti hringir.) annarra þjóðþinga.