138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:42]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er með ólíkindum hvað hæstv. fjármálaráðherra þarf alltaf að vera pirraður í þessum umræðum þá sjaldan hann heiðrar þennan ræðustól með nærveru sinni.

Virðulegur forseti. Ég var ekkert að hnýta í viðveru hæstv. fjármálaráðherra og þótt honum finnist ekki nýjar upplýsingar hafa komið fram erum við ekki sammála um það í þessu máli frekar en í svo mörgu öðru. Varðandi alla þessa fundi og fundargerðir, já, ég var aðstoðarmaður ráðherra í níu ár, held ég, veit nákvæmlega að þegar um mikilvæg samskipti á milli ráðherra á Íslandi er að ræða við ráðherra eða ráðamenn í öðrum löndum eru gerðar fundargerðir. Nei, ég er ekki að biðja um að þær fundargerðir séu endilega samþykktar af báðum aðilum. Ég hlýt að fara fram á að þær nótur og minnispunktar sem hæstv. ráðherrar vísaði til séu það sem hann getur upplýst okkur um. Hvers lags eiginlega útúrsnúningar eru þetta? Það er auðvitað það sem ég er að tala um. Ég vil fá að vita hvað rætt var á þessum fundum. Það er krafa mín. Ég held að það sé ekki mjög ósanngjörn krafa þegar fyrir liggur að hæstv. ráðherra kemur hérna ítrekað og segir að þetta hafi alltaf verið uppi á borðum, þessu hefur verið haldið til haga. Hvernig þá? Eina fundargerðin sem liggur fyrir í þessu máli segir mér að það hafi ekki verið haldið rétt á málum, að rökstuðningurinn fyrir fyrirvörunum hafi ekki verið fluttur af sannfæringarkrafti. Það les ég úr þeirri fundargerð þannig að ég bið hæstv. fjármálaráðherra um að létta aðeins lund sína og fara að grafa í fundargerðarbókunum eða minnispunktunum vegna þess að það er nákvæmlega það sem ég fer fram á.

Síðan upplýsir hæstv. fjármálaráðherra alltaf um fleiri og fleiri fundi og ég hef ekki undan um að biðja um (Forseti hringir.) fundargögn frá fundunum með Norðmönnum, Svíum, Dönum o.s.frv.