Dagskrá fundarins

Mánudaginn 30. nóvember 2009, kl. 15:05:11 (0)


138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

dagskrá fundarins.

[15:05]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég vil beina því til forseta að skoða dagskrána sem liggur fyrir þessum fundi og líta til þess að samkomulag náist um það hér að við ræðum Icesave-málið svokallaða fram til klukkan átta í kvöld, tökum þá til við að ræða fjáraukalög sem liggja fyrir og afgreiðum þau. Forseti hefur heimild til þess að breyta dagskrá.

Jafnframt legg ég til og tel það alveg nauðsynlegt að við sammælumst um að klukkan 12.30 á miðvikudaginn verði tekin á dagskrá skattafrumvörp þau sem hæstv. fjármálaráðherra hefur lagt fyrir þingið og þau rædd og afgreidd frá 1. umr. til nefndar fyrir klukkan fjögur á miðvikudeginum áður en kemur að þingflokksfundum. Síðan verði haldið áfram með Icesave-umræðuna, standi hún enn yfir þegar þar er komið sögu. Þetta leggjum við stjórnarandstöðuliðar fram til þess að tryggja að fjárlög íslenska ríkisins fái vandaða málsmeðferð í þinginu. Það er hægt að gera það og koma þessum hlutum saman. Það er alveg nauðsynlegt að stjórnarliðar (Forseti hringir.) sýni ábyrgð og samstarfsvilja til þess að koma þessum málum saman, frú forseti.