Dagskrá fundarins

Mánudaginn 30. nóvember 2009, kl. 15:11:23 (0)


138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

dagskrá fundarins.

[15:11]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er ekki þannig að dagskrá Alþingis sé af tilefnislausu eins og hún hefur verið upp sett núna líklega í tíu daga. Hún er sett fram af gildum ástæðum og það gerir forseti í fullu samráði við mig sem á flest ef ekki öll þau mál undir sem eru á dagskránni. Jafntilfinnanlegt og það er að Alþingi skuli ekki komast til þeirra brýnu verka sem þess bíður verður svo að vera. Ég hef útskýrt mjög rækilega fyrir forustumönnum stjórnarandstöðunnar hvaða ástæður liggja þar að baki sem eru sumar þess eðlis að það er hæpið að fara með þær hér í ræðustól á Alþingi. Forustumenn stjórnarandstöðunnar vita vel hvað í húfi er.

Dagskráin verður að vera eins og hún er og stjórnarandstaðan verður þá að bjóða þjóðinni upp á þá mynd af Alþingi sem hún hefur fengið undanfarna daga áfram, beri svo undir.