Dagskrá fundarins

Mánudaginn 30. nóvember 2009, kl. 15:18:14 (0)


138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

dagskrá fundarins.

[15:18]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Nú er það svo að stjórnarandstaðan í þinginu hefur komið fram með afar sanngjarnt tilboð til hæstv. ríkisstjórnar, sem greinilega er komin í miklar ógöngur með þetta mál allt saman. Ég vil hvetja hæstv. forseta til þess að beita því valdi sem forseti hefur til að færa mál til á dagskránni. Hæstv. fjármálaráðherra upplýsti það að dagskráin væri í nánu samráði við hann og það er eflaust allt í lagi, en núna eru hér þrír stjórnarandstöðuleiðtogar sem óska eftir jafnnánu samráði við frú forseta. Og þar sem frú forseti er forseti allra þingmanna hvet ég hana til þess að þiggja það boð um samráð.

Viðbrögð hæstv. fjármálaráðherra eru í besta falli þrjóskuleg, mundi ég segja, að ekki er nokkur leið að taka neinu sem kemur frá okkur í stjórnarandstöðunni. Það sem vekur meiri athygli er að með svari sínu hefur hæstv. fjármálaráðherra upplýst að öllu öðru, þar með talið fjárlögunum, skattamálunum, sé fórnandi fyrir Icesave. (Forseti hringir.) Af hverju, frú forseti?