Dagskrá fundarins

Mánudaginn 30. nóvember 2009, kl. 15:19:47 (0)


138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

dagskrá fundarins.

[15:19]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Mér þykir miður að forseti ætlar ekki að breyta dagskránni en ítreka beiðni stjórnarandstöðunnar um að meiri hlutinn skoði tilboðið, þetta sanngjarna tilboð.

Mig langar líka til að gagnrýna orð hæstv. fjármálaráðherra sem kom hér enn á ný upp með hræðsluáróðurinn um að rökin fyrir því að menn vildu keyra Icesave áfram væru af gildum ástæðum og að það hefði verið rætt við formenn stjórnarandstöðunnar. Það var upplýst að það var ekki og þá get ég líka upplýst að ég hef ítrekað kallað eftir þeim upplýsingum í fjárlaganefnd. Það hefur enginn komið fyrir nefndina til að staðfesta á hverju sá hræðsluáróður væri byggður, eins og hv. þm. Illugi Gunnarsson rakti áðan.

Vandamálið er hins vegar það að margir fjölmiðlamenn og ýmsir í þjóðfélaginu hafa gleypt við þessum hræðsluáróðri um að eitthvað liggi á, (Forseti hringir.) um að það verði að klára Icesave svo hægt verði að halda áfram með önnur mál. Það er ekki þannig, hæstv. forseti.