138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:48]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þm. Margrét Tryggvadóttir hafi hitt naglann á höfuðið. Þegar maður skoðar málið og hvernig því hefur undið fram, og sérstaklega bara eins og í dag þar sem menn staðfesta hvað eftir annað að þetta sé mikilvægast af öllu, menn muni, alveg sama á hverju gengur í þjóðfélaginu, ekki hvika frá því að keyra þetta mál í gegn þrátt fyrir að öll rök hnígi í þá átt að það eigi ekki að gera slíkt, er niðurstaða mín sú, og ég er sammála hv. þm. Margréti Tryggvadóttur, að hér er fyrst og fremst um það að ræða og menn vita það eins og skilaboð frá Evrópusambandsþinginu bera með sér, að Ísland fer ekki inn í Evrópusambandið ef ekki er búið að ganga frá þessu máli á forsendum Evrópusambandsins og forusturíkjanna þar.

Í flestum tilfellum hefðu menn hagað sér með öðrum hætti vegna þess að það er verið að sækja á okkur, við erum ekki að sækja á aðra, ekki í þessu tilfelli. Það er eitthvað undirliggjandi hérna, það er algjörlega ljóst. Ég er sammála hv. þm. Margréti Tryggvadóttur, ég trúi því að a.m.k. sumir hv. þingmenn Samfylkingarinnar og kannski fleiri haldi að þetta muni reddast einhvern veginn ef menn bara gangi í Evrópusambandið. Það er auðvitað tálsýn, menn verða að átta sig á því að í alþjóðastjórnmálum gætir hver sinna hagsmuna. Því miður bárum við ekki gæfu til þess að vinna saman að því að gæta hagsmuna okkar hér. Það er í rauninni sorglegt að við séum að takast á með þessum hætti í þinginu, við hefðum átt að snúa bökum saman og vinna sem einn aðili gegn viðsemjendum okkar.