138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:50]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil nota tækifærið og taka undir með hv. þingmanni að samstöðu er þörf. Ef einhvern tíma var þörf fyrir það að Íslendingar, þingið jafnt sem almenningur í landinu stæði saman er það einmitt í þessu máli vegna þess að þar er við ofurefli að etja.

Ég hjó eftir því í ræðu hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar að hann benti á það að Dominique Strauss-Kahn hefur neitað því staðfastlega að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi beitt sér í málinu til að þvinga fram niðurstöðu. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann trúi því virkilega að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi ekkert beitt sér í málinu og ekki reynt að hafa áhrif á niðurstöðuna með neinum hætti.

Mig langar einnig að spyrja hv. þingmann hvaða lausn hann eygi í stöðunni, hvað væri réttast að gera. Eigum við að reyna að breyta eða bæta fyrirvarana, eigum við að reyna að fella málið eða eigum við að reyna að láta tímann vinna með okkur? Eins og þingmanninum er kunnugt er dómsdagur í dag, það er 30. nóvember og fyrir þann tíma átti að vera búið að leysa þetta mál. Ég óska eftir einhverri tillögu frá þingmanninum að lausn vandans, lausn málsins. Eins vil ég ítreka það að samstöðu er þörf og því er náttúrlega sorglegt hve fáir stjórnarliðar eru hér og sorglegt að ekki skuli geta skapast samstaða í þinginu um að leysa þetta mál í bróðerni eða að salta málið og hleypa mikilvægari málum að.