138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:27]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég talaði aðeins um þá 80 ára gömlu sögu þegar stjórnmálafundur sem haldinn var í Hafnarfirði leystist upp þegar sjálfstæðismaður ætlaði að fara að tala og jafnaðarmenn á þeim fundi gátu ekki unað því. Þeir gengu út og sungu „Sjá roðann í austri“ á meðan sjálfstæðismenn sungu „Ó fögur er vor fósturjörð“.

Mér fannst og finnst þetta enn vera svolítið táknrænt, ekki þó endilega milli hægri og vinstri manna, fyrir þessa baráttu okkar í dag. Það eru jú þeir sem verjast í þessu máli sem vilja standa vörð um sjálfstæði þessarar þjóðar og getu hennar til að standa við skuldbindingar sínar á meðan hæstv. ríkisstjórn og meirihlutaflokkarnir eru tilbúin til að ganga lengra og án nokkurs fyrirvara til samninga við erlendar þjóðir.

Ég fullvissa hv. þm. Margréti Tryggvadóttur um að ég hafði engar athugasemdir við að fólk reis hér upp í vetur, ég hafði fullan skilning á því. Ég er í raun svolítið hissa á því að það skuli ekki vera orðið meira en raun ber vitni í dag um að almenningur komi saman hér á Austurvelli. Það komu þó þúsund manns hér á laugardaginn og það er af hinu góða.

Hæstv. fjármálaráðherra fannst það vera lítið. Hann spurði hér í hliðarsal hvar þjóðin væri og gerði þar með lítið úr þessu. Ég var svolítið hissa á því, ég gerði ekki athugasemdir við þetta. Ég hafði aftur á móti athugasemdir við það, virðulegi forseti, hvernig ákveðnir þingmenn (Forseti hringir.) hér á hinu háa Alþingi ýttu undir þær óeirðir sem fóru í gang sl. vetur, (Forseti hringir.) og vildu sjá þær eflast.