138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:31]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nema hvort tveggja sé þar sem hv. þingmaður nefndi, að sumum í þessari ríkisstjórn finnist svo mikilvægt að halda saman vinstri stjórn í landinu að menn séu tilbúnir að fórna hverju sem er fyrir það, á meðan aðrir hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn í stjórnarmeirihlutanum geta ekki hugsað sér að það hlaupi nein snurða á þráðinn í fyrirhuguðum aðildarviðræðum okkar við Evrópusambandið. Ég er alveg viss um að hjá einhverjum hv. þingmönnum stjórnarmeirihlutans er þetta tilefnið til að gefa svo ríkulega eftir sem raun ber vitni í þessum samningum.

Ég leiði hugann að því eins og ég gerði í ræðu minni, virðulegi forseti, hvaða stórkostlegu mistök hafa verið gerð í aðdraganda þessa máls og í þeim viðræðum sem hafa átt sér stað. Það litla samráð sem hefur verið haft hér innan hins háa Alþingis af hálfu ríkisstjórnarinnar við minnihlutaflokkana, sem síðan leiðir af sér þessa miklu óeiningu og þennan langa tíma sem þetta mál mun taka, vegna þess að það er einlægur ásetningur okkar, virðulegi forseti, í minni hlutanum að halda þessu máli gangandi svo lengi sem þarf; við ætlum einfaldlega ekki að hleypa því í gegn. Þarna eru vopn minni hlutans samkvæmt lögum um það hvernig Alþingi er háttað. Þarna er okkar vörn og okkar vopn, þau liggja í þessu.