138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:36]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hverjar eru skyldur okkar þingmanna? Stórt er spurt. Ég held að þær séu í þessu máli sem öllum öðrum ríkastar í því að gæta hagsmuna þessarar þjóðar sem best. Ég held að um þetta mál sem klárlega er eitt merkilegasta og mikilvægasta mál sem Alþingi Íslendinga hefur fjallað um á lýðveldistímanum, svo stórt og alvarlegt er þetta mál, að Alþingi ber líka sú skylda og þeim sem þar fara í forustu að mynda um það breiða samstöðu og láta alla koma að þessu máli og leita allra leiða til þess að ná breiðri samstöðu meðal þings og þjóðar. Skylda okkar liggur í því. Þeirri skyldu hefur þessi meiri hluti engan veginn fullnægt. Okkur tókst í þorskastríðunum og öðrum stórum baráttumálum þessarar þjóðar að standa saman. Það er því alveg ömurleg sú staða sem meirihlutaflokkarnir eru búnir að koma hinu háa Alþingi og þessari þjóð í með þeirri sundrung sem búið er að ala á og búa til í þessu máli.

Þáttur fjölmiðla er síðan alveg sérstakur kapítuli í þessu. Því verður ekki neitað að það er mikill munur á umfjöllun fjölmiðla um þessi mál almennt séð ef við horfum ár aftur í tímann. Það var spurt hér áðan um það hvernig það væri með þjóðina, af hverju hún mætti ekki. En hér var þó þúsund manna fundur (Forseti hringir.) á Austurvelli á laugardaginn var (Forseti hringir.) og hver var þáttur fjölmiðla í því? (Forseti hringir.) Hér áður voru beinar útsendingar. Hér var fjallað um þetta í öllum fjölmiðlum (Forseti hringir.) ríkt og mikið um það að stæði til að funda, (Forseti hringir.) en það var ekki gert núna.