138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:04]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst eitt atriði í annars ágætri ræðu hv. þingmanns honum ekki alveg samboðið. Það er þegar hv. þingmaður heldur því hér fram sem óumdeildum sannindum að allir fyrirvarar Alþingis frá því í sumar séu bara horfnir. Það er einfaldlega alrangt og það veit hv. þingmaður. Efnahagslegu fyrirvararnir eru inni í viðaukasamningum nákvæmlega eins og frá þeim var gengið hvað varðar viðmiðun við hagvöxt og að öllu leyti eins nema því að vextir skuli ávallt greiddir. Það eru afar litlar líkur á öðru en að við (Gripið fram í.) getum gert það og mundum alltaf kjósa að gera hvort sem er, því að það væri orðið hart í búi ef við nenntum ekki að verjast því að vextir hlæðust upp eftir að til afborgunar kemur. Fullveldisfyrirvararnir eru allir inni nákvæmlega eins og um þá var búið í lögunum frá því í sumar. Annar lagalegi fyrirvarinn kenndur við Ragnar H. Hall er inni og meira að segja er þannig frá honum gengið í viðaukasamningnum að hann gildir sjálfkrafa, komist íslenskir dómstólar að þeirri niðurstöðu. Þá breytist kröfuröð að því tilskildu að það sé niðurstaða íslenskra dómstóla og það gangi ekki í gegn ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins, sem væntanlega hefði alltaf verið leitað eftir hvort sem er í máli af þessu tagi. Hinn lagalegi fyrirvarinn stendur skýr og sjálfstæður í frumvarpinu, þannig er um hann búið. Þess vegna er það einfaldlega efnislega alrangt að tala um þetta með þeim hætti sem hv. þingmaður gerði, að þetta sé ekki til staðar. Menn geta deilt um hvort þeir telji þennan umbúnað þannig að þeir sætti sig við hann.

Varðandi þörfina fyrir að ljúka afgreiðslu þessa máls hefur nákvæmlega ekkert breyst í þeim efnum, Ísland þarf að komast einhvern veginn undan þessu máli. Það er nákvæmlega eins og það var fyrri part síðastliðins vetrar þegar Sjálfstæðisflokkurinn var á þeirri skoðun og forustumenn hans, þáverandi forsætisráðherra Geir H. Haarde, (Forseti hringir.) fjármálaráðherrann Árni Mathiesen, seðlabankastjórinn Davíð Oddsson og formaður utanríkismálanefndar Bjarni Benediktsson (Forseti hringir.) rökstuddu það.