138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:20]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir málefnalega og góða ræðu. Mig langar aðeins að koma inn á orð hæstv. fjármálaráðherra vegna þess að það rann upp fyrir mér ljós núna rétt áðan að hæstv. fjármálaráðherra ætlar með góðu eða illu að klína þessu á sjálfstæðismenn. Ég get tekið undir það að strax eftir bankahrunið gerðu stjórnvöld mistök, kannski eðlilega í ljósi aðstæðna, en hversu mörg lögfræðiálit þarf til að sannfæra hæstv. fjármálaráðherra um að ekkert af því sem sagt var á þeim tíma skuldbatt þjóðina til að samþykkja Icesave? Hversu mörg innlend og erlend lögfræðiálit þarf til að staðfesta að ekkert af því sem sagt var þá batt þjóðina til að gangast undir Icesave-samninginn? Þá áttar maður sig á því að hæstv. fjármálaráðherra er að breiða yfir eigin mistök í málinu. Og hver skyldu þau hafa verið? Jú, í fyrsta lagi að gefa þau skilaboð til samninganefndarinnar að hún ætti að ganga frá málinu. Og svo þegar samninganefndin kom heim með samninginn, að halda því fram fullum fetum að um frábærlega hagstæðan samning væri að ræða. Þar liggur vandamálið, vegna þess að stjórnarþingmenn stukku fram hver á fætur öðrum og lýstu því yfir að þeir þyrftu ekkert að kynna sér málið frekar, þeir mundu samþykkja þetta. Fullveldisréttur Íslendinga var úti sem hæstv. fjármálaráðherra stærir sig nú af að sé inni. Hann var úti, og ef (Forseti hringir.) Framsóknarflokkurinn m.a. hefði ekki barist (Forseti hringir.) gegn málinu á þeim tíma (Forseti hringir.) væri hann enn þá úti.