138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:30]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. forseta að tekin var ákvörðun um það í upphafi fundar að hægt væri að funda fram eftir degi og fram á kvöld en það er óhjákvæmilegt samt sem áður að hæstv. forseti gefi nákvæmari upplýsingar um þetta. Á morgun er 1. desember og ég held að það skipti verulegu máli fyrir okkur að vita hversu lengi hæstv. forseti hyggst halda þessu áfram.

Svo langar mig líka til að fara fram á það við hæstv. forseta að formenn þingflokka hittist fljótlega til að ræða það hversu lengi skuli fram halda. Þetta hefur gengið þannig í marga daga að hv. alþingismenn hafa með engu móti getað skipulagt tíma sinn, hvort sem það er fyrir verkefnin í þingsalnum eða brýn verkefni sem eru enn til meðferðar í nefndum. Ég tek sem dæmi að í hv. fjárlaganefnd — það þarf kannski ekki að taka það fram — eru nokkuð þung mál sem hv. þingmenn þurfa að sinna. Ég hvet hæstv. forseta til að reyna að koma einhverju skikki á þinghaldið (Forseti hringir.) þannig að við fáum upplýsingar um það hversu lengi við verðum hér í kvöld.