138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:38]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég verð bara að mótmæla því harðlega sem hæstv. fjármálaráðherra segir. Það er enginn að væla um það að þurfa að vinna, það er enginn að væla um það að þurfa að vera hér langt fram eftir nóttu. Það sem við erum að kalla eftir er að fá upplýsingar um hvað við eigum að vera hér lengi, þannig að við getum skipulagt tíma okkar til að geta lesið yfir öll þau frumvörp sem hafa verið lögð fram. Það væri bara mjög þægilegt ef maður gæti a.m.k. vitað klukkan hvað þessum þingfundi lýkur. Mér finnst það ekki vera væl. Ef fólk vill vinna hérna í fullkomnu kaosi, fullkomnu skipulagsleysi, býð ég ekki í það hvernig verkstjórnin hér verður í kringum öll þau frumvörp sem þið viljið að við séum liðleg við.