138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:41]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ekki stór bón að fara fram á það að vita nokkurn veginn hversu lengi við ætlum að funda. Það væri heldur ekki slæmt að fá að vita hvenær hæstv. ráðherra ætlar að taka til máls, hann hafði orð á því hér fyrr í dag að hann ætlaði að gera það. Ég er búinn að beina til hans spurningum sem hann hefur sleppt að svara. Ég held að það væri farsælla, ef hæstv. ráðherra vill í fullri alvöru klára þetta mál, að hæstv. ráðherra reyndi að útskýra það fyrir þeim sem hér eru inni hvernig stendur á því ef jafnmikið liggur á málinu og raun ber vitni, að hann taki ekki þátt í umræðunni eins og hann hefur boðað.

Síðan er það auðvitað sérstakt ef hæstv. ráðherra hefur áhyggjur af því að þingmenn tali of lengi, (Forseti hringir.) og við ræðum það kannski bara seinna, virðulegi forseti.