138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:43]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það kom fram áhugaverð spurning áðan sem ég held að hæstv. forseti þurfi að svara þegar við ræðum hér um fundarstjórn forseta. Hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon spurði þeirrar spurningar: Til hvers halda menn að Alþingi sé?

Ég ætla að svara þeirri spurningu fyrir mig: Alþingi er ekki stimpilpúði ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Ég vil minna á það, frú forseti, af því að við erum að tala um fundarstjórn og hvernig við högum störfum okkar hér, að þetta mál var tekið með ofbeldi út úr fjárlaganefnd og efnahags- og skattanefnd í algjörri andstöðu við minni hlutann í þinginu. Þannig eru menn ekki að vinna eins og fólk á Alþingi Íslendinga þegar við köllum eftir því að vönduð vinnubrögð séu viðhöfð í nefndum þingsins.

Það er eins og hæstv. ráðherra sé búinn að gleyma því þegar hann var sjálfur í stjórnarandstöðu, nema að þá voru mörg önnur minni mál sem hann gagnrýndi málsmeðferðina á, en við erum að ræða hér um eitt stærsta mál (Forseti hringir.) sem hefur komið inn í sali Alþingis í sögu lýðveldisins, (Forseti hringir.) frú forseti.