138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:48]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég get ekki orða bundist vegna þeirrar fundarstjórnar sem hér er. Hér hneykslaðist hæstv. fjármálaráðherra á því að menn töluðu um Icesave-málið. Ég leyfi mér að benda á að í sumar voru samþykkt lög 96/2009 þar sem ég og þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkum lögðum nótt við nýtan dag til þess að ná samkomulagi um að koma þessu máli áfram. Það var gott samkomulag. Það voru viðeigandi fyrirvarar við þá ríkisábyrgð sem hæstv. fjármálaráðherra óskaði eftir. Við afgreiddum það mál frá þinginu með sóma. Það var ekki hægt að ganga þannig frá málum hjá framkvæmdarvaldinu að það væri kynnt sómasamlega fyrir Bretum og Hollendingum og því kom fjármálaráðherra með þetta mál inn í þingið aftur. Forseti þingsins var vöruð við því á sínum tíma að taka þetta mál inn í þingið aftur en hún kaus að vaða á skítugum skónum yfir Alþingi Íslendinga og ganga erinda (Forseti hringir.) framkvæmdarvaldsins. (Forseti hringir.) Þess vegna erum við hér í dag …

(Forseti (ÞBack): Forseti biður hv. þingmann að gæta orða sinna.)

Nú, afsakið, ég vissi ekki hvað ég hafði sagt rangt. Ég biðst afsökunar á því. Þess vegna erum við að ræða þetta mál í þessu málþófi í dag. Það er alfarið forseta þingsins að kenna.