138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:14]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka spurningarnar. Þó að ég hefði alveg rosalega gaman af því að geta svarað fyrir Breta og Hollendinga get ég það ekki.

Varðandi það að taka óupplýstar ákvarðanir sýnist mér sem nýjum þingmanni að það sé frekar regla en undantekning. Í raun og veru er starfsumhverfið líka þannig að manni er hreinlega ekki gefinn tími til að vinna sig í gegnum allt það sem er lagt á okkar borð. Þetta er gríðarlega mikið lesefni sem við fáum.

Ég tók eftir því þegar ég las þessa samninga fyrst yfir sjálf að þeir eru mjög flóknir, á mjög flóknu bresku og hollensku lagatæknilegu máli, þannig að það er ekkert fyrir alla að skilja þá. Það er náttúrlega alltaf erfitt að stíga inn í höfuðið á öðru fólki en ég ræddi við fjölmarga stjórnarliða um að þeir hefðu hvorki gefið sér tíma til að lesa samninginn né t.d. leyniskjölin. Margir höfðu ekki haft tíma til þess enda var dálítið erfitt að finna tíma til að komast þarna aleinn inn í herbergið til að lesa þetta.

Ég vil ekki gera fólki upp að því gangi eitthvað illt til. Ég held að vandamálið í kringum Icesave sé ákveðin vanþekking, og það að vilja ekki hlusta á þau varnaðarorð sem við fáum frá virtum lögfræðingum og ráðgjöfum, ekki bara héðan heldur víðs vegar að, finnst mér ekki góð stjórnsýsla.

Eitt af því sem ég tek mjög alvarlega er að vilja taka upplýstar ákvarðanir. Þess vegna greiði ég t.d. ekki atkvæði um mál sem ég hef ekki getað kynnt mér nógu vel út af því að mér finnst það óábyrgt. Ég skora bara á að okkur verði gert starfsumhverfið (Forseti hringir.) hér betra þannig að við getum kynnt okkur málin.