138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:16]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að hún hefði kynnt sér lönd sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði verið að hjálpa, lönd sem hefðu lent í mjög miklum vandræðum út af svipuðum aðstæðum og við erum í núna.

Nú er skuldaþol íslenska ríkisins dálítið á flökti hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hann gaf það út í vetur eða haust að skuldaþol íslensku þjóðarinnar væri í kringum 240%, það væri það hámark sem íslensk þjóð gæti staðið undir. Síðan kemur í ljós að skuldaþol íslensku þjóðarinnar er komið í 310%. Þá kemur endurskoðunin hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og þá kemur þar fram að hann telji að íslenska þjóðin geti staðið undir því skuldaþoli.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að hún sagðist hafa kynnt sér það, hvort hún geti nefnt mér einhver dæmi um að þjóðir hafi jafnvel misst auðlindir sínar eða eitthvað í þá veru þegar menn gengu fram í að rukka — þetta eru sjálfir gömlu nýlenduherrarnir sem eru á hinum endanum á skuldabréfinu — hvort hv. þingmaður hafi ekki áhyggjur af því að það muni geta gerst þannig og hvort hún þekki einhver dæmi um það.