138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:26]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil gera það sem ég hef gert áður, þakka hv. þingmanni fyrir að halda í þá einlægni og þær væntingar sem hún ber til þingsins. Mér finnst ég enn greina von, ég ætla ekki að greina svartnætti heldur von þingmannsins í þá veru að enn sé Alþingi með tök á málinu eins og við höfðum í sumar þegar við náðum þessari þverpólitísku sátt og vinnu og náðum að setja fram efnahagslegu fyrirvarana.

Ég ber í brjósti mínu von og er tiltölulega bjartsýn, þrátt fyrir þvergirðingshátt ríkisstjórnarinnar, á að við náum því að breyta þessu máli, að við náum að breyta því á þann veg að við stöndum vörð um íslenska hagsmuni, að fjárlaganefnd, efnahags- og skattanefnd og utanríkismálanefnd fái svigrúm til að fara yfir margvíslega þætti og ábendingar sem fram hafa komið þannig að hægt verði að gæta að þeim hagsmunum sem snerta fyrst og fremst framtíðarkynslóðir landsins.

Ég veit að hv. þingmaður og þingmenn Hreyfingarinnar hafa mótmælt því sérstaklega að við skulum halda áfram með efnahagsáætlanir í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Gefum okkur að sú áætlun verði ekki endurskoðuð eða henni verði ekki sagt upp, hvaða væntingar og hvaða vonir bindur hv. þingmaður við þá vinnu sem fram undan er í nefndum þingsins út af þessu máli, út af Icesave? Hvaða vinnu telur hv. þingmaður að helst þurfi að fara í til þess að koma til móts við þær kröfur okkar í stjórnarandstöðunni að við getum staðið vaktina og líka þeirra sem eru úti í samfélaginu? Er það fyrst og fremst stjórnarskráin? Eru það efnahagslegu fyrirvararnir?

Þetta er stór spurning og kannski ekki nægur tími til andsvars. En ég spyr: Telur þingmaðurinn ekki að enn sé von til þess að breyta þessu og hvaða áherslu vill hv. þingmaður þá leggja inn í þá vinnu?