138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:33]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Það er á margan hátt dapurlegt að við skulum vera komin með þetta mál í þetta rifrildi sem það er komið í þessa dagana á Alþingi, sér í lagi þegar horft er til þess að þegar hinir svokölluðu fyrirvarar voru smíðaðir á sumarmánuðum og sú löggjöf var samþykkt á Alþingi reyndu menn að sameinast um að þetta mál væri svo brýnt og mikilvægt fyrir Ísland að það skipti máli fyrir alþingismenn að reyna að ná einhvers konar samstöðu um það hvernig haldið skyldi á málinu.

Maður hefur verið nokkuð hugsi yfir því almennt síðan sú niðurstaða brást, þegar það varð niðurstaða hæstv. ríkisstjórnar að það yrði að hverfa frá þeim fyrirvörum að verulegu leyti, á hvaða vegferð við værum hér stödd í þessu kófi sem við erum enn þá í, að við skyldum ekki geta náð samstöðu um þau grundvallarhagsmunamál þjóðarinnar sem nú eru uppi.

Þetta leiðir hugann að öðrum brýnum hagsmunamálum sem hafa verið uppi fyrr á árum. Það er dálítið áhugavert að Ragnar H. Hall lögfræðingur skuli einmitt hafa tekið þorskastríðið sem dæmi um erfitt milliríkjamál í Morgunblaðinu í dag þar sem hlutirnir voru eiginlega með algjörlega öfugum formerkjum við það sem er í þessu máli. Í þorskastríðinu fóru Íslendingar fram einhliða og ákváðu að færa út lögsögu sína. Úr þessu varð gríðarlega erfið milliríkjadeila og ég hugsa að margir af þeim sem stóðu fyrir utan deiluna, sem voru þá hvorki Bretar né Íslendingar, hafi verið kannski dálítið undrandi á því af hverju þessi eyja hafi kosið að ganga svona fram eins og hún gerði. En ég hygg að á þeim tíma hafi flestir á Íslandi verið sammála um að við yrðum að halda áfram að sækja þann rétt sem við vorum þá búin að ákveða að við ættum gagnvart Bretum og við gerðum það mjög ákveðið sem endaði með því að við fengum fullnaðarsigur í deilunni við Breta.

Bretar voru afar lengi að jafna sig á þessum viðskiptum sínum við Íslendinga, að hafa þurft að gefa eftir í þorskastríðsdeilunni gagnvart því smáríki sem Ísland er. Það er ágætt að menn hafi þetta í huga vegna þess að það er svo skammt síðan þessir atburðir urðu. Ég tek þetta dæmi af því að menn hafa kveinkað sér nokkuð yfir því að verið sé að gera þeim upp þær skoðanir að þeir standi ekki vörð um hagsmuni þjóðarinnar, að þeir vandi sig ekki eins og þeir geta til að verja hagsmuni þjóðarinnar. Ég tel að þeir forsvarsmenn ríkisstjórnar sem hér eru telji sig vera að gera allt það sem þeir geta til að verja hagsmuni íslensku þjóðarinnar, ég efast ekki um það. Ég er hins vegar ósammála því hvernig á þessu máli hefur verið haldið og ég er alls ekki sátt við það lagafrumvarp sem hér er komið og ég get ekki með nokkru einasta móti snúið til baka með þær skoðanir mínar sem ég hélt hér ræður um fyrir örfáum vikum og sagt að nú gildi eitthvað allt annað. Ég get það bara ekki og ég mun ekki gera það.

Mig langar í þessari ræðu til að halda aðeins áfram með það sem ég hef verið að tala um. Í fyrsta lagi langar mig aðeins að fara betur út í þá vinnu sem var á vettvangi fjárlaganefndar þegar málið kom aftur fyrir þingið. Það er ekki boðlegt þegar mál kemur inn í þingið með þeim hætti sem Icesave-málið hið síðara gerði, þegar Alþingi Íslendinga hefur samþykkt lög, að fulltrúar ríkisstjórnarinnar í fjárlaganefnd ákveði að það þurfi að hraða málinu sem kostur er í gegnum fjárlaganefnd vegna þess að á því hafi ekki orðið nein breyting. Það hefur orðið grundvallarbreyting á þessu máli sem nú er fyrir þinginu og því máli sem við samþykktum í haust. Þetta er annað mál, þetta er ekki sama málið, og ef menn vilja standa við það að ná samstarfi hér á milli stjórnar og stjórnarandstöðu ættu þeir að byrja á því að halda áfram því starfi í nefndunum. Þá ættu menn að byrja á því að nýta þann tíma sem nefndirnar hafa til að reyna að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Það var ekki gert í fjárlaganefnd núna á haustdögum þegar ákveðið var að umræða um Icesave-málið hið síðara skyldi vera eins knöpp og unnt væri. Afleiðingarnar af þessari ákvörðun forsvarsmanna fjárlaganefndar eru augljósar. Það þýðir að menn þurfa að gefa sér mun meiri tíma í þingsal til að ræða þau álitamál sem ekki fengust rædd í fjárlaganefnd. Í upphafi skyldi nefnilega endinn skoða. Það er oft betra að gefa sér betri tíma í aðdraganda málanna en að koma málunum í algjört öngþveiti þegar þau kom inn í þingsalinn.

Það er sú staða sem Icesave-málið er komið í núna og til viðbótar eru öll önnur mál sem á dagskrá eru hjá Alþingi þessa dagana komin í helbert uppnám. Það er ekki hægt að koma neinu tauti við ríkisstjórnarflokkana um að æskilegt sé að gera þótt ekki væri nema örfárra klukkutíma hlé á þessari umræðu til að hleypa öðrum málum að. Það segir stjórnarandstaðan í trausti þess og vitandi það að ákveðin mál þurfa að fá vinnu í nefndunum og þar á umræðan að fara fram. Þess vegna er afskaplega leiðinlegt eftir það sem á undan er gengið á haustdögum að menn skyldu ákveða að fara svona fram með þetta mál. Það er náttúrlega sérstaklega dapurlegt vegna þess að hv. fjárlaganefnd ákvað að leita umsagnar t.d. efnahags- og skattanefndar sem eins og kunnugt er kom fjórklofin út úr þeirri vinnu. Það var hins vegar ekki hægt að fá umsögn utanríkismálanefndar.

Í einu nefndarálita efnahags- og skattanefndar, sem mörg hver eru áhugaverð, því frá hv. þm. Lilju Mósesdóttur og Ögmundi Jónassyni, er drepið á atriði sem hefði verið nauðsynlegt fyrir hv. fjárlaganefnd að gefa sér tíma til að fara í gegnum. Þau leggja mat á það hversu mikil áhætta er fólgin í því samkomulagi sem hér er ætlast til að samþykkt verði. Í stað þess að gefa sér einhverja klukkutíma til að gera það var það ekki hægt, heldur skyldi málið bara tekið samstundis út úr nefndinni í ágreiningi. Þetta er ekki til þess að auka á samvinnu og traust milli manna og það er mjög miður á þeirri stundu sem Ísland stendur frammi fyrir núna að menn skuli alltaf og ítrekað fara svona fram. Er það eitthvert einkamál ríkisstjórnarflokkanna að koma Íslandi út úr þessum vandræðum? Halda menn að það sé ekki sameiginlegt hagsmunamál allrar þjóðarinnar? Hvernig er það nú eiginlega?

Síðan er þetta að það þurfi að fara að koma þessu máli frá vegna þess að það sé svo margt annað að gera. Þá vil ég aftur vitna í Morgunblaðið í dag vegna þess að í því komu fram tveir menn með mjög áhugaverða punkta í þessu Icesave-máli, punkta sem menn segja að séu fullræddir og að ekkert nýtt hafi komið fram. Ég nefni Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði, sem setur þetta mál í Morgunblaðinu í dag í samhengi við sérsvið sitt, sjávarútvegsmál, og honum finnst forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar ekki með forgangsröðina alveg á hreinu í þessu máli. Hann segir að virði íslensks sjávarútvegs sé nálægt helmingi minna en byrðin vegna Icesave-samninganna. Það er ekkert annað, sjávarútvegurinn sjálfur, mjólkurkýr Íslendinga. Þær tölur verða frekar fánýtlegar þegar þær eru bornar saman við þessar skuldbindingar. Það er mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því og viðurkenni að ef ekki var hægt að komast lengra við þessa viðsemjendur er það bara þannig en ekki láta eins og við séum með sama málið og við vorum með í sumar. Það er ekki rétt. Af hverju segja menn þá bara ekki hreint út að ekki hafi verið hægt að komast lengra sem væri ansi slæmt? Það hefði verið miklu betra ef við hefðum getað barist fyrir þeirri niðurstöðu sem menn höfðu samþykkt í sumar.

Hvernig getur það verið alveg eins fyrirvari á ríkisábyrgð þegar hún er komin óendanlega virk inn í framtíðina? Hvernig getur það verið sama málið? Hvernig getur það verið sama málið þegar öll vaxtaáhættan er komin beint inn í samninginn? Allar þessar varnir, þetta er ekki sama málið, það er ekki hægt að vera að blekkja menn með þessu. Segið það bara hreint út, þetta er ekki sama málið. Ef menn halda engu að síður að það sé nauðsynlegt að samþykkja það skulu þeir bara gera það sem það halda en ekki segja eitthvað sem stenst ekki.

Þegar menn halda því síðan fram að Ragnars Halls-fyrirvarinn sé algjörlega inni í þessu frumvarpi og allt í fínu lagi með hann ættu menn að kanna hlutina aðeins betur. Ég vildi gjarnan sjá á hvaða degi Bretar samþykktu að það þyrfti að tala um það við aðra dómstóla hvernig þeir skyldu dæma í sínu landi. Mér þætti gaman að sjá þá stund renna upp, herra forseti. Hið sama á við um Hollendinga. Mér þætti gaman að sjá þá gera það, enda tala ráðamenn þessara þjóða ekkert í þessa veru. Þvert á móti segja þeir, eins og fram hefur komið, Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollendinga, og Alistair Darling, sá elskulegi fjármálaráðherra Breta, að þetta innstæðutryggingarkerfi gildi ekkert um kerfishrun. Þetta eru ekki nýjar upplýsingar þó að þær hafi dúkkað miklu meira upp undanfarna daga. Wouter Bos lýsti þessu yfir í maí sl. þannig að þetta er ekkert nýtt, og við höfum haldið því fram í stjórnarandstöðunni í allt sumar að sitt sýnist nú hverjum eftir því hvort þetta eru þeirra eigin hagsmunir eða hvernig menn líta þá.

Það getur ekki verið það sama og það gengur ekki að við ætlum að óathuguðu máli að samþykkja að dómsvald Íslendinga sé háð niðurstöðu EFTA-dómstólsins. Það kemur bara ekki til greina, það getur ekki verið að menn vilji að þetta sé svona. Til viðbótar því er alveg nauðsynlegt að við sammælumst a.m.k. um það í þessum sölum að ef þetta frumvarp fer í gegn eins og það stendur hér sé það ekki orðið einhvers konar fordæmi gagnvart framtíðinni um að það sé hægt að ganga svo freklega á hlutina eins og hér er gert.

Mjög áleitnar spurningar hafa komið upp í þessari umræðu alveg frá því að málið kom aftur inn í þingið um hvernig það er búið gagnvart stjórnarskránni. Það getur vel verið nokkuð til í því að menn hafi svo oft hrópað að verið sé að brjóta stjórnarskrána að þegar menn hafa verulegar áhyggjur af því að gengið sé á svig við stjórnarskrána taki menn það ekki nógu alvarlega. Ég held að það sé skylda okkar að taka það hins vegar mjög alvarlega og ég held að í því sambandi sé ágætt að taka til hliðsjónar hinn svokallaða EES-samning og þegar hann var samþykktur hér í upphafi 10. áratugarins.

Þá komu upp álitamál um hvort þar væri gengið á svig við íslensku stjórnarskrána, að við framseldum of mikið frá okkur í þeim samningi. Alþingi ákvað þá að ekki væri hægt að ganga frá því máli öðruvísi en svo að það fengist algjörlega úr því skorið, herra forseti, hvort þar hefði verið gengið of langt. Mönnum fundust hagsmunirnir bara þess eðlis að það væri nauðsynlegt að eyða nokkrum klukkutímum, nokkrum dögum í að kanna hvort of langt væri gengið. Það var gert með því að fá sérfræðinga til að skrifa álitsgerð til að koma fram með þau sjónarmið sem áttu við um þetta mál. Síðan voru þessi sjónarmið tekin upp í þinginu, þau reifuð og menn komust að niðurstöðu. Það voru ekki bara fengnir lögfræðingar fyrir fund fjárlaganefndar, þeir spurðir spjörunum úr og svo sendir heim. Þetta er ekki nóg þegar um er að ræða svo mikla hagsmuni.

Það kann vel að vera að kannski séum við bara orðin svona rugluð í tölunum að við skiljum hvorki upp né niður þegar um svo stórar tölur er að ræða. Ég get alveg trúað því. Ef við tökum t.d. þessa 35 milljarða kr. í vexti sem við höfum gengist undir hér með því að taka þetta mál frá 1. janúar getum við auðveldlega sett það í samband við annað mál sem er mikið í umræðunni þessa dagana, afnám sjómannaafsláttarins. Það er 1,1 milljarður kr. Þetta eru gríðarlega miklir peningar en eru það meiri peningar en 35 milljarðar kr.? Þetta eru 35 ár af sjómannaafslætti, bara þetta atriði. Hvað skyldi maður geta rekið Hæstarétt lengi fyrir þessa 35 milljarða kr. sem kostar 100 millj. kr. á ári? Þær tölur eru svo stjarnfræðilegar að það er varla að maður geti farið með þær, þann gríðarlega árafjölda sem hægt er að reka Hæstarétt Íslands fyrir einungis þetta atriði.

Ég held nefnilega að það sé nauðsynlegt fyrir okkur sem hér erum að setja þetta í eitthvert samhengi. Við verðum að setja þetta í samhengi þannig að menn sjái um hvað er að að tefla. Hið sama á við um vaxtamálin, þá ákvörðun að hafa fasta vexti í stað breytilegra vaxta. Ég held því fram að það sé enn þá svo mikill órói á alþjóðlegum mörkuðum og það sé enn þá svo margt eftir að gerast þar að það sé full ástæða fyrir okkur að kanna út í hörgul núna, áður en við endanlega göngum frá þessu máli, hvort við höfum tekið rétta ákvörðun með því að velja breytilega vexti. Halda menn að þegar búið er að gangast undir svona skuldbindingar sé hægt að breyta því bara? Þessi samningur gengur kirfilega frá því þannig að þessu verði ekkert breytt. Þess vegna verðum við að taka okkur þann tíma sem við þurfum til að ganga úr skugga um að við séum algjörlega sannfærð um að ekki sé hægt að gera þetta öðruvísi.

Þeir sem trúa því, vegna þess að það er alveg ljóst að þeir finnast hér inni sem trúa því að það eigi að samþykkja þetta mál og það megi ekki breyta því, verða að sannfæra aðra um að það sé rétt. Af hverju er ekki hægt að breyta nokkrum sköpuðum hlutum í þessu máli? Hvenær var það sagt þegar þetta mál kom fyrir þingið að það yrði að fara óbreytt í gegn? Hvaða samkomulag er það? Var þá bara eitthvert sjónarspil að taka þetta mál til umræðu? Það verður náttúrlega að kanna hvort hægt sé að fá einhverju breytt og við verðum að gera úrslitatilraun til að verja hagsmuni okkar í þessu máli. Við verðum að kanna hvort hægt sé að veita ótakmarkaða ríkisábyrgð langt inn í framtíðina og við eigum að hlusta þegar menn eins og Sigurður Líndal koma fram á ritvöllinn og benda á þessa hluti.

Ragnar Hall tekur undir með Sigurði Líndal í Morgunblaðinu í dag þegar hann segir að það geti bara ekki verið að menn haldi áfram með þetta mál öðruvísi en að fá úr þessu skorið. Það getur ekki verið svona erfitt fyrir hæstv. ráðherra að kyngja því að það þurfi að skoða þessa hluti nánar. Ég trúi ekki að það sé vegna þess að það sé svo erfitt fyrir þá að kyngja því að þeir hafi skrifað undir þetta kannski í fullmikilli fljótfærni, ég trúi því ekki upp á þessa menn, það getur ekki verið.

Herra forseti. Það er enn þá margt í þessu máli sem þarf að fara betur yfir. Það er alveg bráðnauðsynlegt að hv. fjárlaganefnd fái til þess eitthvert rúm. Það liggja svo sem ærin verkefni fyrir í hv. fjárlaganefnd en mál af þessari stærðargráðu þarf að fá frið til þess að vinna í nefndinni og það þarf að fá hv. efnahags- og skattanefnd aftur að þessu máli. (Gripið fram í.) Í fyrsta lagi þarf að fara yfir þau álit sem komu frá efnahags- og skattanefnd. Hvers konar leikrit er það að fara fram á álit efnahags- og skattanefndar og rífa svo málið út tveim mínútum eftir að þau berast? Það er ekki hægt að haga sér með þessum hætti. Ég vil að hv. efnahags- og skattanefnd taki þetta mál aftur inn til sín og ræði sérstaklega vaxtahlutann sem mér finnst stöðugt verða alvarlegri. Ég held líka að það sé ástæða til að hv. utanríkismálanefnd taki málið til umfjöllunar fyrir lokaafgreiðslu þess.

Erum við ekki öll sammála um það hér, hv. þingmenn, að við þurfum að vanda okkur alveg einstaklega vel í þessu máli, að þetta sé mál af þeirri stærðargráðu að við megum ekki misstíga okkur og okkur megi ekki fipast? Þegar maður les þetta mál og það sem við samþykktum í sumar, þótt ákveðnir fyrirvarar séu viðhafðir, snýst það um að þeir meginfyrirvarar sem Alþingi setti voru tveir. Það var annars vegar efnahagslegur fyrirvari og hins vegar lagalegur fyrirvari. Þeir eru báðir komnir út á sjó, báðir tveir, og menn ætla bara að taka því þegjandi og hljóðalaust og greiða með því atkvæði. Við höfum ekki leyfi til að gera það. Við höfum ekki leyfi, alþingismenn árið 2009, til að taka ákvörðun fyrir Íslendinga árið 2024 um svona stórkostlegar peningaskuldbindingar.

Ég hef ekki leyfi til þess. Ég lít ekki svo á að ég hafi leyfi til að binda önnur börn en mín um upphæðir sem ég hef ekki hugmynd um hverjar eru. Það gerðum við Íslendingar ekki fyrr á árum þegar við vorum þó mun óstöndugri en við eigum að heita núna. Þá gáfu menn ekki eftir en núna ætla menn að gera það vegna þess að það liggur svo óskaplega mikið á.

Það liggur ekkert á. Það hefur enginn getað sagt mér af hverju liggur svona óskaplega mikið á. Hvað er það sem átti að gerast núna 30. nóvember, eða hvenær sem það nú var, eða 23. október eða ég veit ekki hvaða dagsetningu maður getur nefnt í því samhengi? Ekkert. Það gerist ekki neitt annað en að við erum ekki búin að taka ákvörðun um þessar fáránlegu skuldbindingar. Ég þakka bara fyrir hvern einasta dag í því.

Svo tala menn um að hér sé komið af stað mikið málþóf. (BJJ: Ekkert málþóf, nei.) Ég hlusta bara ekki á svoleiðis tal, ég hlusta bara ekki á það að menn kveinki sér yfir því að hér sé fjallað um þessar skuldbindingar. Það kemur ekki til greina.

Stjórnarandstaðan er margbúin að bjóða það og býður það nótt og dag að þetta mál verði tekið af dagskrá tímabundið svo hægt sé að hleypa öðrum málum í gegn. Ég hefði haldið að það væri mjög vel boðið og það væri æskilegt af hæstv. ríkisstjórn og hv. forráðamönnum í þinginu að taka það til athugunar, og einnig þarft finnst mér. Ég held að við ættum líka öll að sameinast um að sá bragur sem hér er á sé ekki til framdráttar á þeim stundum sem nú eru. Eru ekki nóg verkefnin hér sem þarf að fara í, að ekki þurfi að stofna til ófriðar um hvert einasta mál? Þurfa menn að standa hér á laugardagskvöldi og rífast um einhverjar furðulegar túlkanir á þingsköpum Alþingis? Hvað á þetta eiginlega að þýða? Sú uppákoma var náttúrlega algjörlega fáránleg, að halda að þegar Alþingi setur aukaþingdag á sé bara hægt að halda fund allan sólarhringinn. Ja, ég hefði nú séð suma láta bjóða sér það. (Gripið fram í: Jæja.) Þetta gengur náttúrlega ekkert upp. Svona ná menn ekki samkomulagi við stjórnarandstöðuna, svona gera menn það ekki, herra forseti.