138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:53]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og get tekið undir nánast allt sem þar kom fram. Eins og hefur komið fram í fjölmiðlum og var reyndar ljóst fyrir mörgum mánuðum, þó að það hafi kannski ekki alveg komið nægilega skýrt fram, upplýsti Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, að evrópska innstæðutryggingarkerfið væri ekki hannað til að takast á við kerfishrun heldur aðeins fall einstaks banka.

Morgunblaðið bendir einnig á í dag að Alistair Darling hafi nýlega lýst því yfir að hann muni ekki ábyrgjast innstæður sem var stofnað til utan yfirráðasvæðis breska fjármálaeftirlitsins. Þá veltir maður fyrir sér: Af hverju erum við Íslendingar að taka á okkur þessar Icesave-skuldbindingar? Er það vegna þess að því hefur verið haldið fram að íslensku þjóðinni beri af einhverjum ástæðum siðferðilega skylda til þess að greiða fyrir Icesave-reikningana? Það hefur verið rökstutt með þeim hætti að hér hafi verið samin neyðarlög sem tryggðu innlán allra íslenskra þegna eða Íslendinga innan yfirráðasvæðis okkar Íslendinga.

Hvernig getur staðið á því að Íslendingar vilji að við borgum þessar skuldir og segi um leið að við höfum siðferðilegar skuldbindingar til þess á meðan Bretar eru að gera það nákvæmlega sama? Mér þætti vænt um að heyra skoðanir þingmannsins á þessu.